Stökkva beint að efni
  Haltu áfram til að sjá tillögur að niðurstöðum
  Hvernig auka má öryggiskennd gesta og tryggja framtíðarbókanir

  Hvernig auka má öryggiskennd gesta og tryggja framtíðarbókanir

  Þú getur deilt endurbættu ræstingarferli þínu, komið með tillögu að nýjum dagsetningum og fleira.
  Höf: Airbnb, 20. apr. 2020
  3 mín. lestur

  Aðalatriði

  • Deildu endurbættu ræstingaferli þínu, einkum ef þú fylgir þessum leiðbeiningum

  • Bjóddu sjálfsinnritun og aðra eiginleika sem gæta að nándarmörkum

  • Komdu með tillögu að nýjum dagsetningum fyrir gistinguna og íhugaðu að bjóða afslátt

  • Mundu að þetta er líka erfitt fyrir gesti. Samkennd og vingjarnleiki geta skipt miklu máli

  Þetta er erfiður tími fyrir ferðaiðnaðinn. Þú veist betur en nokkur hvernig COVID-19 hefur áhrif á gestgjafa og mörg ykkar skilja einnig vandamálið sem gestir standa frammi fyrir. Það er erfitt að skipuleggja frí þegar maður veit ekki hvort maður komist í ferðina.

  Þar sem óvissa ríkir enn gætu gestir verið að velta því fyrir sér hvað þeir eigi að gera varðandi bókun á næstunni. Með því að veita mikilvæga fullvissu, hagnýtar ráðleggingar og örlitla samkennd getur þú hjálpað gestum að taka upplýsta ákvörðun og lágmarka áhrifin á gistirekstur þinn. Hérna eru nokkrar hugmyndir sem við höfum heyrt frá gestgjöfum á alþjóðlegum opnum fundum okkar:

  Deildu endurbættu ræstingarferli þínu

  Hreinlæti skiptir meira máli en nokkru sinni fyrr. Til að draga úr dreifingu COVID-19 höfum við tekið saman leiðbeiningar um þrif byggðar á tilmælum Sóttvarnarstofnunar Bandaríkjanna (CDC). Ef þú fylgir þessum leiðbeiningum skaltu íhuga að senda gestum skilaboð áður en dvöl þeirra hefst til að láta vita af því. Í skráningarlýsingunni getur þú einnig nefnt viðbótarráðstafanir sem þú gerir varðandi þrif og sótthreinsun á eigninni.

  Láttu vita hvernig þú ýtir undir nándarmörk

  Láttu gesti vita um það sem þú gerir til að halda samneyti í lágmarki á meðan á dvölinni stendur, til dæmis með því að bjóða sjálfsinnritun eða forðast almennt viðhald. Þú getur einnig bent á eiginleika sem gera einangrun auðveldari eins og að vera með sérinngang eða enga nágranna.

  Komdu með tillögu að nýjum dagsetningum fyrir bókunina

  Með öllum fyrirmælunum um að halda kyrru fyrir á einum stað og ferðaráðleggingunum um heim allan gæti gestum verið ómögulegt að komast til eignarinnar þá daga sem þeir bókuðu. En það þýðir ekki að viðkomandi hafi algjörlega snúist hugur um ferðina. Íhugaðu að hafa samband og koma með tillögu að nýjum dagsetningum. Með því að ræða beint við gest þinn getur þú mögulega útbúið áætlun sem hentar báðum aðilum.

  Bjóddu gestum að bóka aftur með afslætti

  Ferðaiðnaðurinn er þrautseigur og fólk mun vilja kanna heiminn aftur á ný. Þegar það gerist mun fólk leita að gistiaðstöðu. Þú getur auk þess fengið forskot á samkeppnina þannig að ef líklegt er að bókun falli niður skaltu íhuga að hafa samband við gestinn og bjóða viðkomandi afslátt ef hann breytir dagsetningum. Þú munt ekki aðeins tryggja þér framtíðarbókun heldur munu gestir þínir kunna að meta viðleitnina og meiri líkur eru á að þeir mæli með eign þinni eða bóki aftur síðar. Við minnum á að gestir fá ekki endurgreitt ef COVID-19 verður til þess að þeir þurfi að falla frá bókunum sem gerðar voru eftir 14. mars nema þeir séu veikir.

  Mundu að þetta er líka erfitt fyrir gesti

  Það veldur mörgum ferðamönnum miklum vonbrigðum að afbóka ferð. Viðkomandi gæti einnig verið að upplifa áhrif COVID-19 á annan hátt, hvort sem það er aflýst brúðkaup, atvinnumissir eða veikur ástvinur. Reyndu að hafa það í huga í hvert sinn sem þú færð afbókunarbeiðni. Ef svar þitt einkennist af vingjarnleika og samkennd eru gestir þínir líklegri til að bóka aftur hjá þér síðar þegar þeir eru tilbúnir að ferðast á ný.

  Við vonum að þessar tillögur komi að gagni þegar þú hefur samband við gesti þína. Með réttri nálgun má veita það öryggi sem viðkomandi þarfnast til að halda bókunum sínum eða finna nýja lausn sem virkar fyrir báða aðila. Ferðalög munu hefjast aftur og þegar það gerist munt þú vera gestgjafinn sem gestirnir muna eftir.

  Aðalatriði

  • Deildu endurbættu ræstingaferli þínu, einkum ef þú fylgir þessum leiðbeiningum

  • Bjóddu sjálfsinnritun og aðra eiginleika sem gæta að nándarmörkum

  • Komdu með tillögu að nýjum dagsetningum fyrir gistinguna og íhugaðu að bjóða afslátt

  • Mundu að þetta er líka erfitt fyrir gesti. Samkennd og vingjarnleiki geta skipt miklu máli

  Airbnb
  20. apr. 2020
  Kom þetta að gagni?