Hvernig ofurgestgjafi varð upplifunargestgjafi

Þetta lærði tónlistarmaður og ofurgestgjafi í nýjustu gestgjafaferðinni sinni.
Airbnb skrifaði þann 3. okt. 2018
4 mín. lestur
Síðast uppfært 7. jan. 2022

Ofurgestgjafinn Burt Blackarach frá Los Angeles hefur alltaf verið góður í að þefa uppi frábær tækifæri. Hann ólst upp í tónlistarfjölskyldu og fór að reka tónlistarfyrirtæki foreldra sinna þegar hann var 14 ára. Síðan þá hefur tónlistarferill Burts reynst yfirgripsmikill, frá hljóðvinnslu til plötu sem vann Grammy-verðlaun og að sjá um tónlistina í HBO-þáttaröð til þess að semja tónlist fyrir auglýsingar sem sýndar voru á Super Bowl-leiknum. Nýlega bauð hann tónlistarupplifun á Airbnb.

Við settumst niður með Burt til að komast að því hvernig hann bauð upplifun, hvernig það hefur haft áhrif á hvernig hann tekur á móti gestum í eigninni í bakgarði sínum og hvað hann hefur lært af því. Hér er það sem hann hafði að segja.

Segðu okkur frá upplifun þinni. Hvað er sérstakt við hana?
„Upplifun mín heitir Vertu plötusnúður í einn dag. Ég tek á móti litlum hópi fólks í upptökuver mitt og kenni því grunnatriði upptöku tónlistar og blöndunar, hvernig á að velja tónlist, hvað er góður taktur og allt það. Þetta var fyrsta upplifun sinnar tegundar á Airbnb og hún var nokkuð sem enginn hafði velt fyrir sér.“

Af hverju fórst þú að leggja áherslu á plötusnúðastörf sem upplifun?
„Margir vilja læra að verða plötusnúður því þeir telja það auðvelt. En því fylgir búnaður, val á tónlist og að skilja hvernig þetta fer allt saman. Þetta þarf allt að fara saman svo allt hljómi vel.

„Ég byrjaði að læra skífuþeytingar með vinum mínum í áttunda bekk, sem var í raun upphaf tónlistarferils míns. Síðan kom framleiðslan og lagasmíðar og allt annað á eftir. Ég hef unnið við þetta mjög lengi. Þess vegna fær fólk sem skráir sig í upplifunina mína þrjár klukkustundir af handleiðslu frá sérfræðingi. Þetta er gaman og þau þurfa ekki að vera hrædd. Fólk getur fengið mikið út úr þessu.“

Hvernig gerðist þú upplifunargestgjafi?
„Rekstur á Airbnb er sambærilegur rekstri á eigin fyrirtæki. Venjulega þegar maður stofnar fyrirtæki þarf maður að fá rekstrarleyfi eða lán, eiga fjármagn og það getur útilokað marga. En á Airbnb getur maður fengið hugmynd og greitt 10 Bandaríkjadali.

„Ég hafði heyrt að Airbnb væri að bjóða upplifanir og það hljómaði nokkuð svalt. Ég er mikill aðdáandi Airbnb. Ég legg mig allan fram í því sem ég tek mér fyrir hendur. Mig langaði að skapa eitthvað þar sem ég notaðist við tónlistarbakgrunn minn þar sem sérþekking mín liggur á því sviði. Ég sendi hugmyndina inn og var boðinn á fund hjá Airbnb. Þau unnu með mér við að búa til upplifunina.

„Upplifunin byrjaði tvíþætt. Við vörðum tíma í upptökuveri að læra hljóðblöndun og síðan fórum við í plötubúð í nágrenninu og keyptum plötur. Núna er ég farinn að einbeita mér að hlutanum í upptökuverinu því það er ástæðan fyrir þátttöku gesta og það auðveldar líka skipulagninguna. Eins og við umsjón með skráningu vill maður leika sér að mismunandi hlutum til að komast að því hvað virkar.“

Þú ert einnig ofurgestgjafi. Hvernig hefur það haft áhrif á umsjón þína með upplifunum?
„Ég lærði mikið af því að taka á móti gestum hjá okkur. Við búum í miðborg L.A. Allt er í 15 mínútna fjarlægð án umferðar svo í fyrstu hélt ég að við gætum bara sett saman skráningu og hún yrði sjálfkrafa bókuð. Konan mín gerir alltaf meira og sá til þess að bústaðurinn væri hreinn, fallega hannaður og með góðum þægindum.

„Á heildina litið held ég að við höfum náð árangri með skráningunni okkar með því að nota aðferð sem byggir á því að snuða ekki fólk og koma vel fram við það. Ég notaði það sem virkaði til að verða ofurgestgjafi þegar ég gerðist upplifunargestgjafi.“

Hvað er það besta við að vera upplifunargestgjafi?
„Þetta hefur blásið nýju lífi í tónlistarferil minn. Þetta veitir mér útrás fyrir sköpunargáfu mína. Sem listamaður verður maður pirraður ef maður fær ekki útrás fyrir sköpunarkraftinn. Þetta gerir mér kleift að bregða smá á leik og deila hæfileikum mínum með fólki. Þetta hefur einnig opnað nýjar leiðir í vinnu og ég hef fengið mikið af nýjum verkefnum. Ég er jafnvel farinn að halda fyrirtækjaviðburði þar sem ég þeyti skífur.“

Einhverjar ráðleggingar fyrir aðra gestgjafa sem íhuga að útbúa upplifun?
„Í fyrsta lagi þarf maður að hafa þekkingu á sínu sviði. Ef maður er ísgerðarmaður verður maður að geta svarað spurningum um framleiðslu á ís. Að sama skapi og með skráningu verður maður að vera reiðubúinn að leika sér að mismunandi hlutum til á átta sig á hvað virkar í raun. En ólíkt skráningu, þar sem maður breytir verðinu og slíku, ætti maður að reyna að halda verðinu stöðugu á upplifun. Upplifunin þarf augljóslega að vera þess virði en samt aðgengileg fólki. Fólki þarf að líða eins og það sé að njóta einhvers sem er sérstakt. Maður þarf að passa að gestir fái síðan að taka eitthvað með sér úr upplifuninni. Gestir mínir fá að velja nokkrar plötur úr safninu mínu og því fá þeir að taka eitthvað með sér úr upplifuninni.“

Upplýsingarnar í þessari grein gætu hafa breyst frá birtingu.

Airbnb
3. okt. 2018
Kom þetta að gagni?