Haltu áfram til að sjá tillögur að niðurstöðum

  Sumarútgáfa Airbnb 2022: Þetta þurfa gestgjafar að vita

  Við erum að búa til nýjar leiðir til að uppgötva skráningar og við erum að bæta við AirCover fyrir gesti.
  Höf: Airbnb, 11. maí 2022
  7 mín. myndskeið
  Síðast uppfært 11. maí 2022

  Aðalatriði

  Athugasemd frá Brian Chesky, forstjóra Airbnb og meðstofnanda

  Öll heimili á Airbnb eru einstök. En undanfarin 25 ár hefur verið erfitt að finna þessi heimili með hefðbundinni ferðaleit. Það er vegna þess að fólk þarf að slá inn staðsetningu og dagsetningar í leitarreit og niðurstöðurnar sýna aðeins eignir sem passa við það sem er slegið inn.

  Frá og með deginum í dag erum við að gera fólki auðveldara en nokkru sinni fyrr að uppgötva heimili með flokkum á Airbnb. Þegar gestir opna Airbnb sjá þeir strax meira en 50 flokka með 4 milljónum heimila sem sýna það sem gerir eignirnar frábærar—þar á meðal stíl eigna og þægindi; staðsetningu og nálæga afþreyingu á borð við golf, brimbretti og skíði.

  Jafnvel þótt gestir leiti að ákveðnum áfangastað sýnum við þeim aðra flokka með heimilum sem þeir hefðu mögulega aldrei fundið. Við munum bæta við enn fleiri flokkum með tímanum vegna þess að við erum þeirrar skoðunar að það gæti verið til flokkur fyrir hvert heimili og hvern gestgjafa. Og það er ekki allt og sumt.

  Þar sem fleiri gista lengur en nokkru sinni áður vildum við bjóða enn fleiri valkosti fyrir slíkar ferðir. Þess vegna kynnum við deiligistingu, frumlega nýjung sem parar saman tvö heimili í sömu ferð. Með henni sjá gestir að meðaltali allt að 40% fleiri heimili við leit að lengri gistingu. Við erum einnig að víkka út verndina með AirCover til allra gesta en við kynntum þessa vernd fyrir gestgjöfum síðastliðið haust.

  Pakkinn með öllum þessum eiginleikum í sömu uppfærslu er stærsta breytingin á Airbnb í áratug.

  —Brian Chesky

  Flokkar á Airbnb

  Við kynnum nýja leið til að leita sem byggir á flokkum á Airbnb. Þegar gestir skoða Airbnb eru sýndir fleiri en 56 flokkar valinna heima sem byggjast á einstökum stíl eigna, staðsetningu eða nálægð við afþreyingu á ferðalagi.

  Flokkarnir sýna staði með mögnuðu útsýni eða hönnun sem veitir manni innblástur, eignir staðsettar við vatn eða nærri þjóðgarði og heimili í þekktum borgum eða nálægt golfvelli. Þetta eru bara nokkrir af flokkunum en í þeim eru 4 milljónir einstakra heimila í boði gestgjafa.

  Þegar gestir leita að tilteknum áfangastað birtast þeim skráningar í flokki sem kallast öll heimili. Gestir sjá einnig aðra flokka sem eiga við staðinn svo að það er auðvelt að finna ótrúleg heimili innan leitarsvæðisins, eða rétt fyrir utan það. Og svo geta skráningar einnig birst í mörgum flokkum. Ef heimili í Lake Tahoe er með kokkaeldhúsi gæti skráningin því bæði komið fram í flokki fyrir stöðuvatn og kokkaeldhús—auk þess að skráningin kemur fram í leitarniðurstöðum fyrir Lake Tahoe.

  Ávinningurinn er enn meiri fyrir þau ykkar sem eruð með eignir fyrir utan vinsælustu ferðamannastaðina. Flokkar auðvelda gestum að finna einstaka dvöl fyrir utan staðina sem gestir hefðu annars leitað sér að gistingu. Til dæmis getur tilvonandi tónlistarmaður sem leitar í flokki skapandi rýma fundið sér heimili í Georgíu með fullbúnu upptökuveri.

  Flokkar geta einnig veitt gestum innblástur til að dvelja á nýjum stað. Gestur sem vill fara í frí til Bretlands hefði til dæmis mögulega aðeins hugsað um London eða þekkta staði með gömlu leitaraðferðinni. Með nýju leitaraðferðinni getur gesturinn leitað í flokkum sem vekja áhuga og fengið innblástur til að gista á sveitaheimili ekki langt frá Oxford eða smáhýsi nærri Manchester.

  Lagt er mat á heimilin í hverjum flokki. Við beitum vélanámi (e. machine learning) til að greina titla, lýsingar, myndatexta, skipulögð gögn frá gestgjöfum og umsagnir.

  Þessir nýju flokkar eru bara fyrsta skrefið fyrir þessa nýju leið til að skoða sig um. Við munum kynna enn fleiri flokka með tímanum sem sýna einstaka eiginleika og sérstöðu eigna ykkar.

  Það sem þú getur gert sem gestgjafi:

  • Skráningum er áfram gefin einkunn miðað við ýmis atriði svo sem gæði, verð, vinsældir, nálægð þegar leitað er að staðsetningu og gæði ljósmynda. Því skaltu ganga úr skugga um að skráningin sé uppfærð, fullfrágengin og rétt.
  • Yfirleitt birtast myndir eigna sem eru lýsandi fyrir tiltekinn flokk hærra í þeim flokki. Mundu að bæta frábærum ljósmyndum við skráninguna á eigninni þinni.
  • Leggðu áherslu í skráningarstillingunum á einstaka eiginleika eignarinnar þinnar, eins og sögulegt mikilvægi hennar eða hönnun.
  • Frekari upplýsingar um nýju flokkana á Airbnb.

  Deiligisting

  Eftir því sem fleiri gestir leita að lengri gistingu getur verið að framboð eigna sem eru lausar allan ferðatímann verði takmarkað.

  Gestir mundu því ekki finna eignir ykkar séu þær ekki lausar nógu lengi fyrir alla dvöl gestsins. Þess vegna bjuggum við til deiligistingu sem er frumleg nýjung sem gerir gestum kleift að skipta ferð milli tveggja heimila. Niðurstaðan er sú að gestir finna allt að 40% fleiri skráningar þegar leitað er að gistingu í 14 nætur eða lengur.*

  Þegar gestur leitar að ferð sem varir í viku eða lengur birtist deiligisting sjálfkrafa í leitarniðurstöðum. Gesturinn getur þá valið á milli stakra skráninga sem bjóðast allan tímann sem dvölin varir eða að deila ferðinni milli tveggja skráninga á sama áfangastað.

  Áður fyrr komu eignir ekki fram í leitarniðurstöðum þegar gestir leituðu að mánaðarlangri ferð ef þær eru aðeins lausar í tvær vikur á tímabilinu. Með deiligistingu er hægt að para skráningu eignar við aðra eign til að bjóða gistingu alla dvölina og svo að eignirnar nýtast fleirum.

  Í deiligistingu eru paraðar saman tvær eignir sem uppfylla leitarskilyrði varðandi staðsetningu, tegund eignar og þægindi. Leiti fjölskylda til dæmis að eign með aðgengiseiginleikum eins og þrepalausu aðgengi fyrir gesti eða breiðari dyragáttum sýnir deiligisting tvær skráningar með þeim eiginleikum.

  Þegar deiligisting birtist á korti tengjast eignirnar saman með línu sem sýnir gestum hve langt er á milli eignanna og í hvorri eign gistingin hefst. Gestir fylgja þægilegu viðmóti eftir að hafa valið deiligistingu og bóka eignirnar eina í einu alveg eins og í dag.

  Það sem þú getur gert sem gestgjafi:

  • Skráningar uppfylla skilyrði til að vera með í deiligistingu séu þrjár eða fleiri gistinætur lausar svo að þú gætir viljað stilla dagatalið þitt í samræmi við það.
  • Við mælum með því að lengja hámarksdvölina í að minnsta kosti sjö nætur svo að eignin bjóðist oftar í deiligistingu.
  • Nú er einnig góður tími til að leggja áherslu á vinsæl þægindi fyrir lengri dvöl eins og hratt og áreiðanlegt þráðlaust net, vinnusvæði fyrir ferðatölvu og aðgengiseiginleika.
  • Fáðu frekari upplýsingar um það hvernig þú getur höfðað til gesta sem vilja dvelja lengur.

  AirCover—vernd fyrir alla gestgjafa og gesti

  Airbnb er sterkt vegna þess að gestgjafar einsetja sér að bjóða gestum framúrskarandi gistingu. Eftir því sem fleiri gestir uppgötva fleiri staði á Airbnb viljum við að gestir viti að ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis finna gestgjafar lausn með þeim.

  Ef svo ólíklega vill til að eitthvað gerist sem þú hefur ekki stjórn á, og þú getur ekki leyst úr vandamálinu, er Airbnb þér innan handar. Þess vegna erum við að bæta við enn frekari vernd með AirCover til að hún verndi alla gestgjafa og alla gesta. Það verður til þess að öllum finnst öruggt að bjóða gistingu og gista á Airbnb.

  Í nóvember 2021 kynntum við AirCover fyrir gestgjafa; vernd frá A til Ö, öllum gestgjöfum að kostnaðarlausu og aðeins á Airbnb. AirCover fyrir gestgjafa veitir 1 milljón Bandaríkjadala eignavernd gestgjafa og 1 milljón Bandaríkjadala ábyrgðartryggingu gestgjafa.**

  Komi upp alvarlegt vandamál í dvöl gests sem þú getur ekki leyst úr veitir AirCover nú hverjum gesti í hverri dvöl fjórfalda vernd:

  1. Bókunarvernd: Ef svo ólíklega vill til að þú þurfir að fella bókun gests niður minna en 30 dögum fyrir innritun finnum við svipað eða betra heimili fyrir gestinn á kostnað Airbnb—eða endurgreiðum gestinum.
  2. Innritunarábyrgð: Ef gestur getur ekki innritað sig í eignina þína, og þú getur ekki leyst úr vandamálinu, til dæmis ef gesturinn kemst ekki inn í eignina og nær ekki sambandi við þig, finnum við svipað eða betra heimili fyrir gestinn í jafn langan tíma og upphaflega dvölin átti að vera á kostnað Airbnb—eða endurgreiðum gestinum.
  3. Lýsingarábyrgð: Ef gesturinn kemst í raun um að eign sé ekki eins og hún var auglýst (til dæmis ef ísskápurinn hættir að virka og það er ekki auðvelt að laga hann eða ef svefnherbergin eru færri en þau áttu að vera) hefur gesturinn þrjá daga til að tilkynna málið og við finnum fyrir svipað eða betra heimili fyrir hann á kostnað Airbnb—eða endurgreiðum gestinum.
  4. Öryggisaðstoð allan sólarhringinn: Gestur sem finnur til óöryggis fær forgangsaðstoð hjá sérþjálfuðum öryggisfulltrúum, dag sem nótt.

   Frekari upplýsingar um hvernig AirCover verndar bókun allra gesta og allar gildandi undanþágur.

   Við minnum á að AirCover er alltaf innifalið og kostar aldrei neitt fyrir þig og gestinn þinn. Verndin býðst einnig beint í Airbnb appinu og á vefsíðunni svo að gestir eigi auðvelt með að hafa samband við þig eða fá aðstoð þjónustuvers ef þörf krefur.

   Það sem þú getur gert sem gestgjafi:

   • Svaraðu gestum áfram vel. Það er alltaf best ef þú getur leyst úr áhyggjum gesta.
   • Finndu svör við spurningum um AirCover fyrir gesti.
   • Ef þú hefur ekki enn gert það skaltu kynna þér þann innifalda ávinning sem Airbnb fyrir gestgjafa hefur upp á að bjóða.

   *Samkvæmt rannsóknargögnum Airbnb til og með 14. apríl 2022.

   ** Eignavernd gestgjafa, ábyrgðartrygging gestgjafaog ábyrgðartrygging upplifana vernda hvorki gestgjafa sem bjóða gistingu í gegnum Airbnb Travel, LLC né gestgjafa með gistingu á meginlandi Kína og í Japan þar sem gestgjafavernd í Kína, gestgjafatrygging í Japanog upplifunartrygging í Japan gilda. Eignavernd fyrir gestgjafa tengist ekki ábyrgðartryggingu gestgjafa. Hafðu í huga að allar upphæðir eru sýndar í Bandaríkjadölum og mundu að aðrir skilmálar og undanþágur gilda einnig.

   Upplýsingarnar í þessari grein gætu hafa breyst frá birtingu.

   Aðalatriði

   Airbnb
   11. maí 2022
   Kom þetta að gagni?