Ábendingar til að koma í veg fyrir samkvæmishald í eigninni þinni

Fáðu nánari upplýsingar um alþjóðlegt bann okkar gegn samkvæmishaldi og leiðir til að komast hjá vandamálum.
Airbnb skrifaði þann 1. júl. 2020
3 mín. lestur
Síðast uppfært 25. júl. 2022

Aðalatriði

  • Samkvæmt reglum Airbnb um samkvæmi og viðburði getur þú afbókað án afleiðinga ef þú leggur fram sönnunargögn fyrir því að gestur ætli sér að halda samkvæmi

  • Skýrar væntingar og samskipti geta komið í veg fyrir vandamál

Eitt af forgangsmálum Airbnb er að hjálpa gestgjöfum og gestum að gæta öryggis. Til að koma í veg fyrir ósæmilega hegðun í skráðum eignum á Airbnb bönnum við truflandi samkvæmi og viðburði, þ.m.t. opnar samkomur.

Alþjóðlegt bann okkar á viðburðum og samkvæmishaldi hefur leitt til 44% minnkunar á tilkynningum vegna samkvæma milli ára frá innleiðingu í ágúst 2020. Því hefur einnig verið vel tekið af hálfu gestgjafa, samfélagsleiðtoga og kjörinna fulltrúa.

Við viljum að þér líði vel með að taka á móti gestum, hvort sem þú hefur gert það í hundruð skipta eða ert rétt að byrja. Hér eru sex skref sem þú getur tekið til að draga úr líkum á samkvæmishaldi og tengdri áhættu.

1. Kynntu þér hvað felst í banninu

Við hvetjum þig til að lesa reglur okkar um samkvæmi og viðburði til að koma í veg fyrir vandamál. Nokkur lykilatriði:

  • Við leyfum ekki truflandi samkvæmi og viðburði né opnar samkomur.
  • Í tilteknum löndum og svæðum höfum við sett takmarkanir á sumar bókanir á heilum heimilum fyrir gesti yngri en 25 ára hafi þeir fengið neikvæðar umsagnir eða færri en þrjár jákvæðar umsagnir.
  • Á næstu mánuðum fellum við niður takmörkun vegna 16 manna hámarksfjölda gesta sem við innleiddum árið 2020 í þeirri viðleitni að standa vörð um lýðheilsu vegna COVID-19.
  • Gestgjafar á almennum gististöðum eins og hönnunarhótelum geta tekið eigin ákvörðun um að heimila viðeigandi viðburði.
  • Gestgjafar mega ekki heimila samkomu sem brýtur gegn reglunni okkar.

Airbnb gæti gripið til aðgerða gegn gestum og gestgjöfum sem brjóta gegn reglum okkar.

2. Settu gestum skýrar væntingar

Það er góð hugmynd að uppfæra skráningarlýsinguna og húsreglurnar til að láta gesti vita við hverju má búast áður en þeir bóka. Taktu fram hvort þú leyfir aðra gesti á staðnum en þá sem eru hluti af bókuninni. Þetta á sérstaklega við ef eignin þín rúmar marga eða ef hún er með sundlaug eða stórt útisvæði.

3. Kynnstu gestunum þínum

Skýr samskipti við gesti eru eitt af því sem þú getur gert til að gæta öryggis þíns, eignar þinnar og samfélagsins. Þegar þú hefur fengið bókunarbeiðni eða staðfesta bókun skaltu yfirfara upplýsingar um gestinn og spyrja nokkurra grunn spurninga varðandi heimsókn þeirra, til dæmis:

  • Hver er tilgangur ferðarinnar?
  • Hver annar mun gista með þér?
  • Geturðu staðfest að þú hafir lesið húsreglurnar?

Svona gefst þér einnig kostur á því að minna gesti á það sem þú vilt ekki að gleymist, eins og kyrrðartíma. Þú getur látið vita af lögum eða takmörkunum á staðnum tengdum hávaða, bílastæðamálum og lýðheilsu.

4. Vertu góður granni

Láttu nágranna þína vita af gestaumsjón hjá þér. Íhugaðu að láta einn eða fleiri nágranna sem þú treystir hafa samskiptaupplýsingar þínar og biðja þá um að hafa samband við þig ef vandamál skyldu koma upp.

Ef nágrannar hafa áhyggjur getur þú fullvissað þá um að í langflestum tilvikum valdi gestir engum vandræðum. Árið 2021 bárust engar tilkynningar tengdar öryggisvandamálum fyrir 99,92% bókana um allan heim á Airbnb.*

5. Vertu til taks fyrir gesti

Þú getur verið gestum þínum innan handar, jafnvel þótt þú bjóðir sjálfsinnritun. Þetta getur þú gert fyrir innritun, meðan á henni stendur og að henni lokinni:

  • Láttu gesti vita hvernig hafa má samband við þig símleiðis í neyðartilvikum. Þannig átt þú betra með að grípa inn í aðstæður og gestirnir verða ánægðir með skjót viðbrögð.
  • Þú getur boðist til að koma við eða sent einhvern annan ef gesti vantar eitthvað. Ef þú býrð ekki í nágrenninu er góð hugmynd að hafa umsjónaraðila eignar eða samgestgjafa til að sjá um málin í eigin persónu þegar þörf krefur.

6. Gríptu til aðgerða ef þú hefur áhyggjur

Ef þú telur að gestur ætli sér að halda samkvæmi getur þú fellt bókunina niður fyrir innritun án afleiðinga. Við biðjum þig um að leggja fram sönnunargögn sem styðja ákvörðun þína, svo sem skilaboð frá gestinum og önnur gögn.

Segjum sem svo að gestur sem býr nálægt eign þinni bóki einnar nætur gistingu hjá þér yfir helgi á síðustu stundu. Viðkomandi sendir þér skilaboð og spyr út í aukabílastæði fyrir nokkra vini og þú lest umsögn annars gestgjafa um gestinn þar sem minnst er á samkvæmi. Ef þú deilir skilaboðum gestsins og umsögninni með okkur getur þú mögulega fellt bókunina niður án afleiðinga.

Þú getur afbókað á Netinu ef þú býður hraðbókun og hefur ekki náð þriggja afbókana hámarki ársins. Ef innritun gestsins er innan næsta sólarhrings verður þú að hafa samband við okkur til að fella bókunina niður.

Frekari upplýsingar um öryggi og væntingar í tengslum við gestaumsjón má finna í samfélagsreglum okkar.

*Byggt á innanhúsgögnum Airbnb frá 1. janúar til 31. desember 2021.

Upplýsingarnar í þessari grein gætu hafa breyst frá birtingu.

Aðalatriði

  • Samkvæmt reglum Airbnb um samkvæmi og viðburði getur þú afbókað án afleiðinga ef þú leggur fram sönnunargögn fyrir því að gestur ætli sér að halda samkvæmi

  • Skýrar væntingar og samskipti geta komið í veg fyrir vandamál

Airbnb
1. júl. 2020
Kom þetta að gagni?