Afbókunarregla skráninga gildir almennt um afbókanir og endurgreiðslur fyrir bókanir á Airbnb. Í þeim undantekningartilvikum að atburðir sem valda stórtækum röskunum komi í veg fyrir eða banni með lögum að hægt sé að standa við bókun geta reglurnar um óviðráðanlegar aðstæður („reglurnar“) átt við. Við aðstæður sem falla undir reglurnar geta gestir afbókað gegn fullri endurgreiðslu, ferðainneign og/eða öðru bótum óháða afbókunarreglunni og gestgjafar geta afbókað án gjalda eða annarra neikvæðra afleiðinga, en lokað verður fyrir afbókaðar dagsetningar í dagatali skráningarinnar.
Reglurnar gilda bæði um bókanir á heimili, þjónustu og upplifunum og þær gilda um yfirstandandi bókanir eða bókanir þar sem innritun fer fram á gildistökudegi eða síðar, nema að Airbnb hafi tilkynnt notendum um annað. Reglur um óviðráðanlegar aðstæður eru ekki vátrygging.
Eftirfarandi atburðir falla undir reglurnar, að því tilskildu að þeir hafi áhrif á svæðið þar sem bókunin er staðsett, eigi sér stað eftir að gengið er frá bókun og komi í veg fyrir eða banni samkvæmt lögum að hægt sé að standa við bókunina (skilgreindir í þessari reglu sem „atburðir“):
Yfirlýst neyðarástand og faraldrar sem varða lýðheilsu. Faraldrar, heimsfaraldrar og neyðarástand fyrir lýðheilsu sem stjórnvöld lýsa yfir. Þetta á ekki við um sjúkdóma sem eru landlægir (eins og flensuna) eða algengir á staðnum (eins og t.d. mýrakalda í Taílandi). COVID-19 fellur ekki undir reglurnar um óviðráðanlegar aðstæður.
Ferðatakmarkanir stjórnvalda. Skyldubundnar takmarkanir lagðar á af stjórnvaldsstofnun til dæmis um að rýma svæði eða að halda kyrru fyrir. Þetta nær ekki yfir ferðaráðleggingar og aðra opinbera leiðsögn sem er ekki bindandi.
Hernaðaraðgerðir og önnur átök. Stríðsárásir, átök, innrásir, borgarastyrjaldir, hryðjuverkaárásir, sprengingar, sprengjuárásir, uppþot, uppreisnir og óeirðir.
Stórfelldar bilanir í veitukerfum. Langvarandi bilanir í hitaveitukerfi, vatnsveitu og rafmagnsveitu sem hafa áhrif á meirihluta heimila á tilteknu svæði.
Ófyrirsjáanlegar náttúruhamfarir og aftakaveður. Ófyrirsjáanlegar náttúruhamfarir eins og jarðskjálftar og risaflóðbylgjur og ófyrirsjáanlegt aftakaveður eins og hvirfilbyljir. Þetta nær ekki yfir atburði sem eru fyrirsjáanlegir á tilteknum stað eins og lýst er nánar að neðan.
Þegar atburður sem veldur stórtækum röskunum á sér stað metum við stöðuna með tilliti til þess hvort reglurnar um óviðráðanlegar aðstæður eigi við. Sé niðurstaðan sú að þær eigi við, virkjum við reglurnar fyrir viðkomandi svæði og tímaramma sem við gerum ráð fyrir að atburðurinn eigi eftir að koma í veg fyrir með lögum eða öðrum hætti að hægt sé að standa við bókanir. Bókanir utan skilgreinds tímaramma falla hugsanlega ekki undir reglurnar en geti gestgjafar ekki staðið við bókun geta þeir eftir sem áður afbókað án neikvæðra afleiðinga. Við fylgjumst stöðugt með aðstæðum og aðlögum reglurnar með tilliti til breytinga. Teljir þú að reglurnar eigi við um þína bókun skaltu hafa samband við okkur til að athuga hvort það sé rétt.
Okkur er ljóst að annars konar aðstæður sem þú hefur ekki stjórn á geti raskað áætlunum þínum. Bókunin fellur undir afbókunarreglu gestgjafans undir öllum kringumstæðum sem ekki eru taldar upp hér að ofan.
Dæmi um algeng tilvik sem falla ekki undir þessar reglur:
Falli bókanir ekki undir þessar reglur hvetjum við gesti og gestgjafa til að komast að sameiginlegu samkomulagi eins og endurgreiðslu að fullu eða að hluta til eða breytingu á bókunardagsetningum. Það er undir gestgjafanum komið hvort hann endurgreiði meira en afbókunarreglan gerir ráð fyrir. Airbnb á hvorki hlut í né ábyrgist slíkar endurgreiðslur.
Falli bókun undir reglur um óviðráðanlegar aðstæður geta gestgjafar afbókað án gjalda eða annarra neikvæðra afleiðinga. Afbóki gestgjafi samkvæmt þessum reglum verður lokað fyrir afbókuðu dagsetningarnar í dagatali skráningarinnar. Þegar afbókun er gerð samkvæmt reglunum fær gestgjafi ekki útborgað fyrir þær dagsetningar og hafi þegar verið greitt fyrir bókunina verður greiðslan dregin frá næstu bókun eða bókunum.
Gestgjafar geta afbókað án gjalda eða neikvæðra afleiðinga, óháð þessum reglum, séu gildar ástæður fyrir afbókuninni, svo sem vegna meiriháttar tjóns á fasteign. Gestgjafar verða að afbóka gistingu sé eign þeirra óíbúðarhæf eða í ósamræmi við eignina sem gesturinn bókaði. Sé það ekki gert getur það leitt til þess að skráning verði fryst tímabundið, að óloknar bókanir verði felldar niður og gestum verði endurgreitt þar til eignin er íbúðarhæf að nýju og í samræmi við skráningarlýsinguna. Þetta brýtur einnig gegn grunnreglum okkar fyrir gestgjafa og gæti leitt til viðurlaga sem gætu falið í sér að aðgangi viðkomandi verði eytt.
Þessar reglur takmarka hvorki, né hafa áhrif á lagaleg réttindi þín og ákvarðanir Airbnb samkvæmt þessum reglum hafa ekki áhrif á lögbundin réttindi þín.