Sex leiðir til að undirbúa sig fyrir lágannatímann

Prófaðu að bjóða afslætti, kynningartilboð og heimila styttri dvalir til að fylla upp í dagatalið.
Airbnb skrifaði þann 11. nóv. 2024
Síðast uppfært 11. nóv. 2024

Ertu með allt klárt fyrir lágannatímann? Hér eru sex leiðir til að nýta þér verkfæri gestgjafa á Airbnb til að hafa umsjón með bókunum eftir því sem ferðalögum fer fækkandi. Veltu fyrir þér kostum og göllum til að finna það sem hentar gistirekstri þínum best.

1. Heimilaðu styttri dvalir

Með því að stytta kröfur um lágmarksdvöl getur þú náð til gesta sem leitast eftir styttri gistingu og fyllt í eyður í dagatalinu þegar minna er um ferðalög.

Þú getur sérstillt lágmarksdvöl eftir tilteknum dögum vikunnar. Ef eftirspurn eykst til dæmis yfir helgar gætir þú heimilað einnar nætur dvöl í miðri viku en ekki fyrir föstudags- og laugardagsnætur.

Svona lækkar þú kröfur um lágmarksdvöl:

  • Opnaðu framboðsflipann í dagatali skráningarinnar.
  • Pikkaðu á lágmarksfjölda gistinátta undir lengd ferðar.
  • Breyttu lágmarksdvöl í samræmi við það sem hentar þér.

„Ef átta nætur eru lausar hjá mér eru líkurnar á sjö nátta bókun litlar,“ segir Felicity, meðlimur í ráðgjafaráði gestgjafa og ofurgestgjafi í Nýja-Suður Wales, Ástralíu. „Með því að stytta lágmarksdvöl hjá mér fyrir það tímabil eru meiri líkur á því að ég nái til fleiri gesta.“

2. Styttu fyrirvarann hjá þér

Það gæti komið sér vel að heimila gestum að bóka með styttri fyrirvara til að fá sem flestar bókanir yfir lágannatímann. Þú getur heimilað lágmarksfyrirvara allt fram til sama dags og innritun fer fram, eftir því hve mikinn tíma þú þarft til að undirbúa eignina fyrir komu gesta.

Svona breytir þú lágmarksfyrirvara hjá þér :

  • Opnaðu framboðsflipann í dagatali skráningarinnar.
  • Opnaðu fyrirvara.
  • Veldu þann dagafjölda sem hentar þér.

Þú getur einnig heimilað beiðnir með skemmri fyrirvara en lágmarksfyrirvarinn hjá þér segir til um. Þú þarft að fara yfir og samþykkja þessar beiðnir handvirkt.

„Þetta er frábært tækifæri til að fá forskot á aðrar eignir sem heimila það ef til vill ekki,“ segir Karen, ofurgestgjafi í Nelson, Bresku Kólumbíu. „Ég býð einnig upp á sjálfsinnritun og nýti mér tímasett skilaboð til að senda leiðarlýsingu. Það gerir mér kleift að taka á móti gestum nær innritun.“

3. Bættu við afslætti á síðustu stundu

Með því að lækka verðið eftir því sem styttist í innritun eykur þú líkurnar á bókunum frá þeim sem skella sér í ferðalag á síðustu stundu. Það gæti komið sér vel að bjóða afslátt fyrir bókanir gerðar 1–28 dögum fyrir innritun til að fylla dagatalið og auka tekjurnar.

Afsláttur sem nemur 10% eða meira af miðgildisverði þínu yfir 60 daga tímabil birtist gestum sérstaklega á skráningarsíðunni og í leitarniðurstöðum. Afsláttarverðið birtist við hliðina á upphaflega verðinu hjá þér sem er yfirstrikað.

Svona bætir þú við afslætti á síðustu stundu:

  • Opnaðu verðflipann í dagatali skráningarinnar.
  • Opnaðu afslátt á síðustu stundu undir öðrum afsláttum.
  • Sláðu inn dagafjölda á milli 1 til 28 fyrir komudag.
  • Sláðu inn prósentuafsláttinn sem þú vilt bjóða.

„Ég lækka mest um 15% hjá mér,“ segir Jimmy, ofurgestgjafi í Palm Springs, Kaliforníu. „Ég er með lágmarksverð, svo að ég fer aldrei niður fyrir það. Ég er kannski til í að fara niður í það lágmarksverð til að ná inn bókun fyrir komandi helgi.“

4. Bættu við viku- og mánaðarafslætti

Afsláttur fyrir lengri gistingu getur bætt stöðu í leit, fyllt upp í eyður í dagatalinu og dregið úr umstangi á milli bókana. Það gæti komið sér vel að bjóða vikuafslátt af gistingu sem varir í sjö nætur eða lengur, og mánaðarafslátt af gistingu sem varir í 28 nætur eða lengur.

Viku- og mánaðarafsláttur sem nemur 10% eða meira birtist gestum sérstaklega á skráningarsíðunni og í leitarniðurstöðum. Afsláttur tengdur dvalarlengd birtist einnig sérstaklega við hlið upprunalega verðsins í sundurliðun verðsins.

Svona bætir þú við viku- eða mánaðarafslætti:

  • Gættu þess að hámarks- og lágmarksdvalarlengd hjá þér sé í samræmi við staðbundin lög og reglugerðir.
  • Sé grundvöllur fyrir því að bjóða vikulanga gistingu eða langdvöl opnar þú verðflipann í dagatali skráningarinnar.
  • Tilgreindu prósentuafslátt undir viku- eða mánaðarafslætti og pikkaðu á vista.

„Þú tryggir skráningu þinni betri sýnileika með því að bjóða viku- eða mánaðarafslátt,“ segir Omar, ofurgestgjafi í Mexíkóborg. „Ég hef tekið eftir því að æ fleiri ferðalangar, sérstaklega fjarvinnuflakkarar, bóka gistingu sem varir í lengri tíma.“

5. Bættu við sérsniðnu kynningartilboði

Kynningartilboð eru frábær leið til að birtast ofar í leitarniðurstöðum yfir lágannatímann og næla í fleiri bókanir. Afsláttur sem nemur 15% eða meira birtist gestum sérstaklega á skráningarsíðunni og í leitarniðurstöðum.

Svona bætir þú við sérsniðnu kynningartilboði:

  • Opnaðu verðflipann í dagatali skráningarinnar.
  • Tilgreindu dagsetningar í dagatalinu.
  • Stilltu prósentuafsláttinn.

Mögulegt er að sérsniðið kynningartilboð standi ekki alltaf til boða fyrir skráninguna þína. Til að uppfylla skilyrði til að bjóða sérsniðið kynningartilboð þarf tiltekin eign meðal annars að hafa verið bókuð minnst þrisvar sinnum og þar af minnst einu sinni á undanförnu ári auk þess sem valdar dagsetningar þurfa að hafa verið lausar í minnst 28 daga.

„Kynningartilboð gera mér kleift að stilla verð fyrir komandi mánuði með möguleikanum á að bjóða afslátt ef eftirspurn á tilteknu tímabili lætur ekki á sér kræla,“ segir Daniel, meðlimur í ráðgjafaráði gestgjafa á Tenerife, Kanaríeyjum. „Þau eru eitt af uppáhaldsverkfærum mínum því ég vil geta áttað mig á eftirspurn og framboði til að geta hagað málum hjá mér í samræmi við það.“

6. Uppfærðu verðið hjá þér

Með því að bera saman verð sambærilegra eigna í nágrenninu getur þú tryggt samkeppnishæft verð og fengið fleiri bókanir eftir því sem dregur úr ferðalögum. Ef verðið hjá þér er hærra en hjá sambærilegum eignum í nágrenninu gætir þú lækkað það til að höfða til fleiri gesta og bæta stöðu þína í leit.

Ef þú býður sama verð fyrir allar nætur gætir þú notið góðs af því að bjóða sérverð fyrir virka daga og helgar. Með því að haga verði eftir tíma vikunnar getur þú fengið sem mest út úr bókunum.

Svona gerir þú samanburð á álíka eignum:

  • Opnaðu verðflipann í dagatali skráningarinnar.
  • Veldu allt að 31 daga tímabil.
  • Pikkaðu á skoða sambærilegar eignir.

Þú munt sjá meðalverð sambærilegra eigna í nágrenninu á kortinu af svæðinu þar sem þú ert. Hnappar á kortinu gera þér kleift að velja hvort þú vilt skoða bókaðar eða óbókaðar eignir. Þættir sem tekið er tillit til við val sambærilegra eigna eru meðal annars staðsetning, stærð, eiginleikar, þægindi, einkunnir, umsagnir og skráningar sem gestir eiga til með að skoða sem annan valkost samhliða þinni.

„Ég fylgist með eignum sem eru svipaðar minni svo að ég geti tryggt samkeppnishæft verð,“ segir Katie Kay, meðlimur í ráðgjafaráði gestgjafa og ofurgestgjafi í Lake Arrowhead, Kaliforníu. „Það er mikilvægt að sýna sveigjanleika yfir lágannatíma til að fá fólk til að bóka eignina.“

Þú stjórnar ávallt verði þínu og stillingum. Niðurstöður geta verið mismunandi. 

Gestgjafar fengu greitt fyrir að taka þátt í viðtölum.

Upplýsingarnar í þessari grein gætu hafa breyst frá birtingu.

Airbnb
11. nóv. 2024
Kom þetta að gagni?