Sex leiðir til að krækja í bókanir á síðustu stundu

Það er auðveldara að fylla upp í dagatalið með því að bjóða afslætti og heimila styttri dvalir.
Airbnb skrifaði þann 11. nóv. 2024
Síðast uppfært 11. nóv. 2024

Það kemur fyrir að nætur losni óvænt hjá vinsælustu skráningunum. Þessar sex ábendingar gætu komið sér vel til að næla í bókanir á síðustu stundu og hámarka tekjurnar.

1. Bæta við afslætti á síðustu stundu

Afsláttur á síðustu stundu veitir gestum hvata til að bóka. Þessi tegund afsláttar nær yfir bókanir sem gerðar eru 1–28 dögum fyrir innritun.

Afsláttur sem nemur 10% eða meira af miðgildisverði þínu yfir 60 daga tímabil birtist gestum sérstaklega á skráningarsíðunni og í leitarniðurstöðum. Afsláttarverðið birtist við hliðina á upphaflega verðinu hjá þér sem er yfirstrikað.

Svona bætir þú við afslætti á síðustu stundu:

  • Opnaðu verðflipann í dagatali skráningarinnar.
  • Opnaðu afslátt á síðustu stundu undir öðrum afsláttum.
  • Sláðu inn dagafjölda á milli 1 til 28 fyrir komudag.
  • Sláðu inn prósentuafsláttinn sem þú vilt bjóða.

Þú getur breytt afslættinum miðað við hvenær bókað er og aukið hann til dæmis eftir því sem styttist í innritunardag. 

Athugaðu að þessi afsláttur er ekki í boði þegar kveikt er á snjallverði.

2. Heimilaðu styttri dvalir

Gestir sem skella sér í frí á síðustu stundu hafa mögulega aðeins einn eða tvo daga til að ferðast. Með því að stytta lágmarksdvöl hjá þér gerir þú gestum kleift að bóka styttri gistingu og nærð frekar í þá sem ferðast með stuttum fyrirvara. 

Svona lækkar þú lágmarksdvöl hjá þér:

  • Opnaðu framboðsflipann í dagatali skráningarinnar.
  • Pikkaðu á lágmarksfjölda gistinátta undir lengd ferðar.
  • Breyttu lágmarksdvöl í samræmi við það sem hentar þér.

3. Berðu saman álíka eignir á þínu svæði

Samanburðartól Airbnb fyrir álíka eignir kemur þér að gagni við að halda verðinu fyrir óbókaðar nætur samkeppnishæfu. Kynntu þér meðalverð sambærilegra eigna á svæðinu fyrir sama tímabil og gerðu mögulega breytingar á gistináttaverðinu hjá þér í samræmi við það.

Svona gerir þú samanburð á álíka eignum:

  • Opnaðu verðflipann í dagatali skráningarinnar.
  • Veldu allt að 31 daga tímabil.
  • Pikkaðu á skoða sambærilegar eignir.

Kortið sýnir meðalverð sambærilegra eigna í nágrenninu miðað við staðsetningu, stærð og þægindi. Notaðu hnappana á kortinu til að sýna bókaðar eða óbókaðar eignir.

„Ég er alltaf að athuga hvort verðið hjá mér sé ekki örugglega samkeppnishæft og því vil ég vita hvað aðrir gestgjafar í nágrenninu eru að fá fyrir nóttina hjá sér,“ segir Felicity, meðlimur í ráðgjafaráði gestgjafa og ofurgestgjafi í Nýju-Suður Wales, Ástralíu.

4. Breyttu gistináttaverðinu hjá þér

Með því að lækka verðið fyrir óbókaðar nætur tímabundið eykur þú líkurnar á bókunum. Eignir með lægra verð miðað við aðrar í nágrenninu birtast yfirleitt hærra í leitarniðurstöðum. Þú getur alltaf breytt verðinu síðar meir í samræmi við tekjumarkmið þín eftir því sem bókunum fer að fjölga.

5. Styttu fyrirvarann

Heimilaðu gestum að bóka með styttri fyrirvara til að fylla dagatalið yfir lágannatímann. Þú getur heimilað fyrirvara allt fram til sama dags og innritun fer fram, eftir því hve mikinn tíma þú þarft til að undirbúa eignina fyrir komu gesta.

„Ég veit hvernig það er að vera á ferðalagi og þurfa á gistingu að halda á síðustu stundu. Það er ástæða þess að ég set ekki þak á hvenær einstaklingur getur sent mér bókunarbeiðni,“ segir Myranda, ofurgestgjafi í Little Rock, Arkansas. „Jafnvel þótt enginn sé bókaður fyrir næsta dag sé ég alltaf til þess að eignin sé hrein og tilbúin undir komu gesta.“

Svona breytir þú lágmarksfyrirvara hjá þér:

  • Opnaðu framboðsflipann í dagatali skráningarinnar.
  • Opnaðu fyrirvara.
  • Veldu þann dagafjölda sem hentar þér.

Þú getur einnig heimilað beiðnir með skemmri fyrirvara en lágmarksfyrirvarinn hjá þér segir til um. Þú þarft að fara yfir og samþykkja þessar beiðnir handvirkt.

6. Láttu vini og fjölskyldu vita

Láttu fólk í tengslaneti þínu vita í gegnum samfélagsmiðla, tölvupóst eða textaskilaboð að heimilið þitt sé laust. Mögulega veitir það einhverjum þeirra innblástur til að bóka ferð með stuttum fyrirvara.

Líkt og alltaf eru skýr samskipti lykilatriði og það á kannski sérstaklega við um bókanir á síðustu stundu. Þegar gestur bókar minna en 48 klst. fyrir innritun getur viðkomandi valið innritunartíma sem er frábrugðinn hefðbundnu innritunartímabili þínu. Ef þú býður upp á hraðbókun muntu fá bókunarfyrirspurn. Hafðu skýrar innritunarleiðbeiningar tilbúnar og láttu vita ef þú þarft á lengri tíma að halda á milli dvala.

Gestgjafar fengu greitt fyrir að taka þátt í viðtölum.

Upplýsingarnar í þessari grein gætu hafa breyst frá birtingu.

Airbnb
11. nóv. 2024
Kom þetta að gagni?