Að gera viðskiptaáætlun fyrir gestgjafa

Hagnastu á eigninni þinni með þessum fimm ábendingum ofurgestgjafa.
Airbnb skrifaði þann 19. júl. 2019
10 mín. lestur
Síðast uppfært 7. jún. 2021

Aðalatriði

  • Búðu til hlutverkalýsingu til að hefjast handa

    • Skoðaðu eignir skráðar í kringum þig til að sækja þér innblástur

    • Gerðu fjárhagsáætlun til að vera á réttu róli miðað við markmið þín sem gestgjafi

    • Láttu vin gista hjá þér til að gefa þér athugasemdir áður en þú tekur á móti fyrsta gestinum

    • Kannaðu tækni eins og snjalllása til að hjálpa þér að taka á móti gestum

    Nick og Sarah Roussos-Karakaian eru hjón sem eru ofurgestgjafar saman (@nestrs) og þau breyttu gestaumsjón í rekstur í fullu starfi í Columbus, Ohio. Þau fengu bakteríuna eftir að hafa skráð kjallarann sinn í New York á Airbnb árið 2012. Þau hafa gert þetta að draumastarfi sínu frá þeim tíma. Sarah er einnig annar þáttastjórnenda í hlaðvarpinu „Thanks for Visiting“ sem er gagnast bæði reyndum og nýjum gestgjöfum. Hér gefa þau ráð og deila þekkingu um hvernig hægt er að hefja rekstur á Airbnb.

    Ofurgestgjafarnir Nick og Sarah gefa ráð um hvernig hefja má sjálfbæran og arðsaman rekstur á Airbnb.

    Sarah: „Þetta byrjaði hjá okkur í Queens í New York. Ég var leikkona. Ég vann líka mikið sem barþjónn.“

    Nick: „Og ég var starfsnemi með meistaragráðu í byggingarlist sem átti varla fyrir mat...“

    Sarah: „Og við þráðum bæði að verða húseigendur en vissum ekki hvernig við ættum að fara að. Dag einn sá ég smáhýsi sem var minnsta húsið við götuna og dýrt fyrir okkur en ég var ákveðin í að finna leið til að eignast það.“

    Nick: „Við gátum fengið lán vegna fjármálalæsis, sparnaðar og aðstoðar frá fjölskyldunni.“

    Sarah: „Og um leið og þetta átti sér allt stað komst ég að því að vinur minn hafði skráð herbergi í íbúðinni sinni á Airbnb sem hjálpaði honum að greiða leiguna í New York; það þótti mér alveg villt. Airbnb var ekki mjög þekkt á þessum tíma. Ég sagði Nick að við gætum skráð eignina okkar. Hann var hikandi en mér þótti þetta áhugavert. Við skelltum okkur í þetta og þannig byrjaði allt saman.“

    Nick: „Ég man að ég hreinsaði klósettin og hafði ánægju af því. Þetta borgaði húsnæðislánin okkar svo að ég hugsaði: „Já, þetta er æðislegt! Hvernig getum við gert meira af þessu?““

    Sarah: „Ég naut góðs af mikilli reynslu af vinnu á lúxushótelum; og ég elskaði þetta. Eftir fjögur ár sem gestgjafar og húseigendur í New York vorum við svo heppin að byggingaraðili bankaði upp á og vildi kaupa eignina af okkur með húsgögnum og öllu.“

    Nick: „Eftir miklar vangaveltur, langan lista af mögulegum áfangastöðum í töflureikninum, vegaferðir um allt landið og spjall við íbúa enduðum við í Columbus, Ohio.“

    Sarah: „Að geta blandað hönnun, gestrisni og fasteignum saman (og njóta sköpunarfrelsis) hefur verið eins og draumur sem rætist. Þess vegna er það okkur hjartans mál að hjálpa öðrum að læra gestaumsjón.“

    1. Byrjaðu á hlutverkalýsingunni

    Sarah: „Við mælum með því að byrja á hlutverkalýsingu áður en hafist er handa. Hún verður hugmyndafræðin og leiðarljósið sem skiptir sérstaklega miklu máli þegar upp gæti komið óvissa um stefnu eða ákvörðun. Hlutverkalýsingin getur leiðbeint þér á réttan stað. Hún mun einnig gagnast við hönnun og uppbyggingu eignarinnar.“

    Nick: „Þegar þú býrð til hlutverkalýsingu skaltu gefa þér tíma til að svara nokkrum spurningum:

    • Hvað hvetur þig áfram?
    • Hver eru gildin þín?
    • Hvernig viltu starfa?
    • Hvað sérðu fyrir þér?
    • Hver eru markmiðin þín?“

    Sarah: „Hlutverk okkar er að umbreyta eignum sem umbreyta lífum. Og við reynum að hafa það í huga í öllu sem við gerum.“

    2. Kannaðu markaðinn

    Nick: „Það er mikilvægt að rannsaka og skoða samkeppnisstöðuna þar sem þú ert áður en þú hefst handa. Þessar frumrannsóknir gagnast við hönnun, gerð vörumerkis og markaðssetningu á þinni eign.

    • Hugsaðu um lýðfræði. Hvaða fólk er líklegt til að bóka og gista hjá þér? Columbus er til dæmis svo mikill háskólabær að við höfðum til foreldra í heimsókn með eignunum okkar.
    • Leggðu mat á þægindin. Leyfirðu gæludýr? Ertu með bílastæði eða sundlaug? Er skreytingin í eigninni einstök? Allt sem gerir eignina þína aðeins betri gefur líka möguleika á að hækka verðið aðeins.
    • Leitaðu á Netinu og skoðaðu aðrar skráningar á Airbnb, hótel og skammtímaútleigu í nágrenninu. Hvað er í boði? Hvað kosta hinar eignirnar? Hefur þú tök á að aðgreina þig?
    • Búðu til verðáætlun. Notaðu snjallverð Airbnb til að auka nýtingarhlutfallið hjá þér þegar þú ert að byrja en með þeim getur þú breytt verðum sjálfkrafa milli virkra daga og helga.“

    3. Rétta verðið til að hagnast

    Sarah: „Það er ofurmikilvægt að búa til fjárhagsáætlun þótt hún sé kannski ekki mjög spennandi. Við mælum með því að nota töflureikni og flokka kostnað í þrennt:

    Forkostnað: Þetta eru upphafsfjárfestingar í eigninni áður en nokkur kemur á staðinn svo sem endurbætur, innréttingar, húsgögn og ljósmyndun.

    • Gefðu þér tíma til að fjárfesta í innréttingunum. Þú þarft ekki að kaupa af dýrustu verslununum eða hafa algjöran lúxus alls staðar. Hafðu eignina einfaldlega hlýlega. Skoðaðu flóamarkaði eða vertu skapandi og prófaðu eitthvað nýtt með litum eða þema. Þessi atriði draga augu gesta að skráningunni þinni.
    • Við segjum nýjum gestgjöfum alltaf að fjárfesta í þægilegum dýnum, sófum og rúmfötum. Allir hossa sér á dýnunni strax og þeir koma fyrst inn á hótelherbergi svo að dýnan hjá þér ætti að vera góð. Stundum er rúmið eitt og sér nóg til að við fáum 5 stjörnu umsögn og það hjálpar þér að auka nýtingarhlutfallið.

    Viðvarandi gjöld: Neysluvörur fyrir gesti sem þarf að kaupa meira af eins og snyrtivörur, salernispappír, eldhúspappír, rafhlöður og ljósaperur.

    • Ertu með eitthvað aukalegt eins og flöskur af vatni eða kaffi?
    • Búðu til lista yfir öll þægindin sem þú þarft og vertu viss um að verðin sem þú finnur séu í lagi
    • Kauptu í heildsölu fyrir sex mánuði í einu og haltu utan um magnið í töflureikni
    • Mundu að taka tillit til þess hve oft á ári þú þarft að kaupa vörur eins og rúmföt. Þú ættir alltaf að vera með hrein rúmföt fyrir gesti.

    Viðhalds- og umsjónarkostnað: Hann nær yfir allt sem þarf til að halda eigninni öruggri, hlýrri og íbúðarhæfri, þar með talinn garð og ytri rými. Ætlarðu að ráða ræstitækni til að hjálpa þér við undirbúning fyrir næsta gest eða vera með samgestgjafa?

    Leggðu þessar tölur saman og vertu viss um að fjárfestingin sé viðráðanleg og að markmið þín séu raunhæf. Ef þetta gengur ekki upp gætir þú þurft að spara meira fyrir fram svo að eignin fylli þig stolti þegar hún er tilbúin.“

    4. Hugsaðu eins og gestur

    Sarah: „Sú ábending sem mér finnst einna best að deila með gestgjöfum er að biðja heiðarlegan og hreinskilinn vin um að gista á staðnum. Maður er svo nálægt eigninni allan daginn að maður getur gleymt því sem ferðamenn þurfa að hafa (t.d. tannbursta eða tannkrem) eða manni getur yfirsést hönnunargalli. Vinur þinn getur bent þér á pirrandi smáatriði sem skipta samt miklu máli. Það er ekki gott að gestir sem hafa borgað fyrir gistingu bendi á þessi atriði.“

    Nick: „Okkur finnst gott að skilja eftir körfu merkta „Gleymdir þú einhverju?“ með snyrtivörum og öðru sem gesti gæti vantað á síðustu stundu. Gestrisni verður alltaf að vera manni fremst í huga við reksturinn til að ná árangri. Gestrisnin er ástæða þess að fólk gistir á hótelunum sem það elskar. Fólk veit þá hverju það má reikna með: eign sem er eins og enginn hafi gist þar áður, vandlega samanbrotnum handklæðum og það getur treyst því að þar sé allt sem það þarf eins og hleðslutæki fyrir símann við hliðina á náttborðinu. Þú vilt veita gestum þínum jafn góða þjónustu svo að þeir vilji koma aftur og aftur.“

    5. Nýttu sjálfvirkni

    Nick: „Gestaumsjón er áskorun en leikvöllurinn er breyttur frá því að Airbnb byrjaði. Það er miklu meiri tækni, tól, hjálpargögn og aðstoð sem þú hefur til að skipuleggja ferlið og auðvelda þér lífið sem gestgjafi.“

    Sarah: „Þegar nýir gestgjafar eru að byrja mælum við með því að gera allt frá A til Ö fyrir hverja dvöl; frá fyrstu bókunarskilaboðunum, gestamóttöku og til þrifa og frágangi á eigninni til að undirbúa hana fyrir næstu gesti. Þegar þú skilur allt ferlið getur þú aukið sjálfvirkni með ýmsum leiðum eins og til dæmis:

    • Veföpp: Þú getur notað öpp (eins og IFTTT) til að forrita viðburðarkveikjur og tengja saman stafræn tól. Þegar þú færð til dæmis bókunarstaðfestingu í innhólfið getur appið sent sjálfvirka áminningu í dagatalið þitt eða til samstarfsaðila eða ræstitæknis.
    • Snjalllásar eru byltingarkenndir. Gestir geta fengið einstakan kóða sem endist aðeins meðan á ferðinni stendur. Þannig geta gestir innritað sig sjálfa svo að við þurfum ekki að koma okkur saman um tíma til að hleypa þeim inn í íbúðina. Við getum einfaldlega haft samband í miðri ferðinni.
    • Gamli, góði listinn: Ég hef útbúið gátlista fyrir hvert heimili á hverjum ársfjórðungi með því sem ég þarf að sinna vegna viðhalds og öryggis eins og að skoða síur í kyndingunni, athuga hvort rafhlöður í reykskynjurum virki og sópa undir rúmum. Ég prenta listann út og hengi hann upp í hliðarskáp svo að ef ég kem við í eign get ég séð stöðuna fyrir árið.“

    Nick: „Að hefja rekstur á Airbnb er mikil vinna. En vonandi getum við sýnt fólki að það er hægt að eiga heimili og sinna rekstrinum í fullu starfi; og að það eru margar leiðir færar.“

    Sarah: „Ég þurfti alveg að breyta um starfsframa og var lafhrædd um að finna aldrei neitt sem ég myndi elska jafn mikið og leiklistina. En Airbnb hefur breytt lífi okkar. Við getum tekið okkar eigin ákvarðanir varðandi sköpun og ráðum okkur sjálfum. Þess vegna er þetta svona spes.“

    Nick: „Við getum haldið sveigjanleikanum og notið lífsins aðeins meira. Vonandi finnur þú þér leið til að hefja rekstur á Airbnb á þínum forsendum. Þú getur fundið okkur ef þú þarft frekari ráð.“

    Njóttu gestgjafahlutverksins!
    Nick + Sarah, Nestrs

    Aðalatriði

    • Búðu til hlutverkalýsingu til að hefjast handa

      • Skoðaðu eignir skráðar í kringum þig til að sækja þér innblástur

      • Gerðu fjárhagsáætlun til að vera á réttu róli miðað við markmið þín sem gestgjafi

      • Láttu vin gista hjá þér til að gefa þér athugasemdir áður en þú tekur á móti fyrsta gestinum

      • Kannaðu tækni eins og snjalllása til að hjálpa þér að taka á móti gestum

      Airbnb
      19. júl. 2019
      Kom þetta að gagni?