Mikilvægi umsagna

Umsagnir á Airbnb byggja upp traust og bæta reksturinn.
Airbnb skrifaði þann 29. nóv. 2019
3 mín. lestur
Síðast uppfært 11. des. 2023

Umsagnir og einkunnir hjálpa gestum að velja ferðatilhögun sem hentar þeim. Gögn Airbnb benda til þess að gestir séu líklegri til að bóka eign eftir því sem stjörnugjöfin er hærri.*

Hvernig umsagnir ganga fyrir sig

Eftir hverja útritun geta gestgjafar og gestir gefið hvorum öðrum umsögn. Hver og einn hefur 14 daga til að skrifa umsögn sem er falin þar til báðir aðilar senda inn umsagnir sínar eða 14 daga umsagnartímabilinu lýkur. Að því loknu birtast umsagnirnar við notandalýsingu gestsins og á skráningarsíðu og notandalýsingu gestgjafans.

Heildarstjörnugjöf

Auk þess að skrifa umsögn geta gestir gefið heildarupplifun sinni einkunn frá einni til fimm stjarna. Stjörnugjöfin birtist við hliðina á hverri umsögn og setur þannig athugasemdir gesta í betra samhengi. Heildareinkunn þín birtist á skráningarsíðunni þinni eftir að minnst þrír gestir hafa gefið þér umsagnir.

Stjörnugjöf er mikilvægur þáttur þess að öðlast stöðu ofurgestgjafa. Ofurgestgjafar verða að hafa meðaleinkunn sem nemur að minnsta kosti 4,8 stjörnum fyrir 10 ferðir í það minnsta eða þrjár bókanir sem vara að minnsta kosti 100 nætur.

Einkunnir og umsagnir skipta einnig máli upp á hvort eign þín teljist meðal þeirra sem eru í uppáhaldi hjá gestum, en flokkurinn er uppfærður daglega.

Flokkar eftir stjörnugjöf

Gestir eru beðnir um að gefa stjörnur í tilteknum flokkum og tilgreina hvað gekk vel eða hefði mátt ganga betur. Sé eignin til dæmis einstaklega hrein gæti gestur gefið fimm stjörnur og valið „tandurhreint baðherbergi“. Ef gestum finnast útritunarleiðbeiningarnar þínar of flóknar gætir þú fengið færri stjörnur fyrir samskipti.

Stjörnugjöf flokka hefur ekki áhrif á stöðu ofurgestgjafa eða heildareinkunn þína, en hún hefur áhrif á það hvaða eignir flokkast „í uppáhaldi hjá gestum“. Þessir flokkar eru:

  • Innritun: Gestir meta hvort innritunarferlið sé skýrt og einfalt, en það skiptir sköpum fyrir jákvæða upplifun gesta.

  • Hreinlæti: Gestir gera ráð fyrir því að eignin sé jafn hrein og snyrtileg og hún lítur út fyrir að vera á skráningarmyndunum.

  • Nákvæmni: Gestir geta lagt mat á hvort þú hafir veitt nákvæmar skráningarupplýsingar, þar á meðal hvort þægindi í boði hafi verið rétt tilgreind.

  • Samskipti: Gestir gefa upplifun sinni einkunn með tilliti til samskipta við gestgjafa í gegnum skilaboð, þar á meðal hvort verk til að sinna við útritun hafi verið skýr og einföld.

  • Staðsetning: Gestir geta veitt athugasemdir um hvort staðsetningu þinni hafi verið gerð nákvæm skil í skráningarlýsingunni.

  • Virði: Gestir gefa eigninni einkunn með tilliti til þess hversu vel þeir telja að verðið hjá þér endurspegli það sem þú býður.

Einkaathugasemdir

Gestir geta sent þér einkaathugasemd sem hluta af athugasemdum sínum. Þessum upplýsingum er aðeins deilt með þér. Hér gefst gestum tækifæri til að segja þér ýmislegt án þess að það hafi áhrif á einkunn þína eða umsögn. Þú getur einnig sent gestum þínum einkaathugasemd.

Að nýta athugasemdir til að bæta skráninguna

Gestir geta veitt þér aðra sýn á málin sem þú hefur hugsanlega ekki velt fyrir þér. Reyndu að líta á neikvæðar umsagnir sem tækifæri til að bæta eign þína eða gestrisni.

Þú getur alltaf svarað umsögnum á skráningarsíðu þinni opinberlega. Með því að svara á uppbyggilegan hátt sýnir þú að þú takir athugasemdir gesta og ánægju þeirra alvarlega.

Að skrifa umsögn um gesti

Þegar þú gefur gestum þínum umsögn gefst þér tækifæri til að láta þakklæti þitt í ljós og veita gagnlegar athugasemdir. Þetta minnir gesti einnig á að gefa þér umsögn.

Hér eru nokkrar ábendingar sem gott er að hafa í huga þegar þú gefur gestum umsögn:

  • Sýndu virðingu.

  • Nefndu tiltekin dæmi þegar það er mögulegt, til dæmis: „Gesturinn fylgdi reglum okkar um kyrrðartíma og útritunarleiðbeiningum fullkomlega.“

  • Talaðu um viðkvæm málefni af góðvild eða geymdu þau fyrir einkaumsögn.

Þú getur gefið gestum einkunn fyrir hreinlæti, samskipti og að fylgja húsreglunum hjá þér. Athugasemdirnar munu einnig auðvelda framfylgni grunnreglna fyrir gesti og hægt verður að tilkynna gesti sem fylgja þeim ekki.

*Byggt á innanhússgögnum Airbnb um virkar skráningar frá nóvember 2022.

Upplýsingarnar í þessari grein gætu hafa breyst frá birtingu.

Airbnb
29. nóv. 2019
Kom þetta að gagni?