Hittu gestgjafana í Flórída sem tóku á móti fólki á flótta undan fellibyl

Þessir gestgjafar á Airbnb komu aftur saman fjölskyldu sem stormurinn skildi að.
Airbnb skrifaði þann 26. ágú. 2019
7 mín. lestur
Síðast uppfært 24. ágú. 2023

Aðalatriði

  • Gestgjafarnir Bob og Juan buðu fólki án samastaðar kostnaðarlausa gistiaðstöðu í gegnum opin heimili þegar fellibylirnir Irma og Michael gengu yfir

  • Ein fjölskylda náði saman heima hjá Bob og Juan eftir að hafa verið aðskilin í fellibylnum Michael

  • Gestgjafar Airbnb buðu afslappandi afdrep þegar fjölskyldan hugaði að því sem tæki við

Opin heimili eru nú Airbnb.org

Verkefni opinna heimila hefur þróast og er orðið að Airbnb.org, glænýrri góðgerðastofnun (501(c)(3) (stofnun sem er ekki rekin í hagnaðarskyni). Þakka þér fyrir þinn þátt í stofnun samfélags opinna heimila með okkur. Það gleður okkur að þú sért hluti af þessum nýja kafla.

Þegar fellibylurinn Michael skildi Jason og Karen að hjálpuðu gestgjafarnir Bob og Juan í opnum heimilum fjölskyldunni að ná aftur saman.

Í október 2018 þegar hitabeltisstormur varð að fimmta stigs fellibyl í „pönnuskafti“ Flórída söfnuðu Jason og Karen börnum sínum saman til að flýja til Orlando.

„Við erum Flórídabúar og þess vegna frekar þrjósk hvað fellibyli varðar,“ segir Jason en fjölskylda hans býr í Fort Walton Beach, 5 km frá ströndinni. „Við hugsum ekki einu sinni um þá nema styrkleiki þeirra sé þriðja eða fjórða stigs. En við þurftum ekki að hugsa okkur tvisvar um þegar þessi náði fimmta stigi. Við ákváðum að koma okkur í burtu.“

Að gera sér grein fyrir þörfinni á að koma sér á brott

„Skólarnir voru lokaðir í tvo daga, sem er óvenjulegt,“ segir Karen, sem kennir leiklist í menntaskóla á staðnum. „Þá vissum við að hann væri stórmál. Við vildum vera saman ef eitthvað hörmulegt skyldi gerast.“

Fellibylurinn Michael náði landi um miðbik Flórídafylkis. Vindhraðinn fór í 241 kílómetra á klukkustund og reif af þök, kaffærði hraðvegi með sjó, braut niður rafstangir og stefndi heilu hverfunum í hættu. Þegar þetta átti sér stað var Jason fastur í 10 klukkustunda fjarlægð í viðskiptaferð og Karen var heima með tveimur sonum þeirra. Fjölskyldan áttaði sig fljótt á því að skýli í nágrenninu voru full og hótel voru of dýr.

„Ég skoðaði hótelöppin mín og sá að hótelin bókuðust hratt og að verðin voru að rjúka upp svo að ég opnaði Airbnb appið mitt,“ segir Jason. „Við höfum klárlega bætt því við rýmingaráætlun okkar að skoða Airbnb á undan hótelunum. Maður vill ekki vera fastur á flótta á vegum þegar stormurinn kemur. Eftir því sem maður bíður lengur því fleiri ákveða að koma sér í burtu.“

Hann opnaði Airbnb appið í símanum sínum og var spurður með tilkynningu hvort fellibylurinn hefði haft áhrif á hann eða fjölskyldu hans. Þar kynntist hann opnum heimilum, þjónustu sem útvegar ókeypis gistingu fyrir fólk sem hefur þurft að líða fyrir hamfarir. Húsið sem hann fann var með þremur svefnherbergjum og þremur baðherbergjum og fullkomlega staðsett svo að fjölskyldan gat keyrt þangað og komið aftur saman.

Húsaskjól í boði gestgjafa opinna heimila

Jason og Karen hittust í eign af Airbnb í miðju Flórídafylki, beint fyrir sunnan Orlando. Orlando er mjög vinsæll staður vegna nálægðarinnar við Disney World. Hönnun heimilisins var afslappandi og vísaði til hafsins, húsgögnin voru með skartgripaáferð og veggirnir voru með glaðlegum litum.

Eiginmennirnir Bob og Juan opnuðu fyrst heimili sitt í þjónustunni árið 2016 og hafa frá þeim tíma hýst nokkrar fjölskyldur sem áttu um bágt að binda vegna fellibyljanna Irmu og Michael. Þeir hafa verið giftir í sjö ár og búið saman í meira en áratug. Bob er á eftirlaunum og sér um eignirnar þeirra en Juan opnaði fyrir stuttu hinsegin ferðaskrifstofu fyrir ferðalög til Ekvador. Í dag hafa þeir tekið á móti meira en 2.000 manns frá meira en 35 löndum.

„Þegar við komum á staðinn var þetta eins og heimili að heiman,“ segir Karen. „Við höfðum auðvitað áhyggjur af heimili okkar en það var notalegt að geta losað sig aðeins við álagið. Sundlaugin kom ánægjulega á óvart.“

Fjölskyldan hvíldist í þrjár nætur, kom saman og fylgdist með fréttum eftir því sem stormurinn magnaðist. „Við fundum til umhyggju þrátt fyrir streituna,“ segir Jason. „Og það vegna apps.“

Bob og Juan gátu lagt sitt að mörkum jafnvel þótt þeir væru langt í burtu heima hjá sér í Fort Lauderdale. Juan hélt nánu sambandi við Jason og spurði oft hvernig fjölskyldan hans hefði það. „Því fylgir samt ábyrgðartilfinning að hafa gesti í húsinu manns,“ segir Bob. „Jafnvel þótt gestirnir séu að flýja verri aðstæður hugsar maður samt: Vonandi kemur ekkert fyrir fólkið.“

Undirbúningur fyrir fellibylstímabilið

Yfirleitt búa Jason og Karen sig undir fellibylstímabilið með því að kaupa nóg af endingarmiklum mat og fylla baðkerið sitt með klaka og vatni. „Ef maður bíður til síðasta dags þegar allir fara að versla eru hillurnar tómar,“ segir Karen. „Við geymum rafhlöður, vasaljós og handsnúin hleðslutæki með rafhlöðum fyrir símana okkar ef rafmagnið skyldi slá út.“

Juan og Bob bjuggu sig undir komu fjölskyldu Jason og Karenar alveg eins og þeir myndu gera fyrir aðra gesti á Airbnb. „Við viljum öll hafa það notalegt á ferðalaginu,“ segir Juan og bendir á að ekkert hafi verið öðruvísi við þessar aðstæður. „Staður sem er hreinn og þar sem fólk er velkomið og öruggt.“

Farið heim í kjölfar stormsins

Þegar Jason og Karen komu aftur heim til sín síðar í vikunni voru ekki miklar skemmdir en margir nágranna þeirra voru ekki jafn heppnir. „Enduruppbyggingin mun taka nokkur ár,“ segir Jason. „Fréttirnar fjalla ekki lengur um það en fólk sem varð fyrir því að hús þeirra voru rifin niður býr enn í tjaldborgum í Panama City.“ Að minnsta kosti 36 manns fórust í fellibylnum Michael sem olli mestum skemmdum á svæðinu síðan 1992.

„Það er mjög gefandi að hjálpa fólki án þess að búast við neinu í staðinn,“ segir Juan. „Jason bauðst nokkrum sinnum til að borga og við sögðum honum: Það er engin þörf á því. Við vitum að þið eigið ekki í önnur hús að venda og okkur er ánægja að hjálpa til.“

„Ef við værum í þeirra sporum með fellibyl á leiðinni,“ segir hann, „væri gott til þess að vita að við gætum leitað á náðir opinna heimila.“

Vertu hluti af vaxandi samfélagi sem beislar mátt deilihagkerfisins þegar þörf er á.

Upplýsingarnar í þessari grein gætu hafa breyst frá birtingu.

Aðalatriði

  • Gestgjafarnir Bob og Juan buðu fólki án samastaðar kostnaðarlausa gistiaðstöðu í gegnum opin heimili þegar fellibylirnir Irma og Michael gengu yfir

  • Ein fjölskylda náði saman heima hjá Bob og Juan eftir að hafa verið aðskilin í fellibylnum Michael

  • Gestgjafar Airbnb buðu afslappandi afdrep þegar fjölskyldan hugaði að því sem tæki við

Airbnb
26. ágú. 2019
Kom þetta að gagni?