Samkennd í verki svo að allir gestir finni að þeir séu velkomnir

Fáðu leiðbeiningar frá reyndum gestgjöfum; allt frá því að uppfæra skráninguna þína til þess að gefa gestum umsögn.
Airbnb skrifaði þann 27. jún. 2022
5 mín. lestur
Síðast uppfært 15. júl. 2022

Aðalatriði

Gestaumsjón á Airbnb þýðir að þú getur opnað eignina þína fyrir fólki alls staðar að úr heiminum og samkennd er undirstaða gestaumsjónar.

Lykillinn að því að njóta velgengni sem gestgjafi er að skilja hvernig stuðla má að því að fólki með ólíkan bakgrunn líði vel heima hjá þér. Við einsetjum okkur að bjóða alla gesti velkomna, óháð kynþætti, trúarbrögðum, þjóðernisuppruna, fötlun, kyni, kynvitund, kynhneigð og aldri; með virðingu og án fordóma og hlutdrægni.

Gestrisni án aðgreiningar er mikilvægur hluti þess að ná árangri sem gestgjafi. Þetta þýðir að:

  • Taka vel á móti gestum með ólíkan bakgrunn

  • Bjóða sanngjarna upplifun og koma til móts við þarfir gesta

  • Byggja upp tengsl í gegnum það sem gerir fólk líkt og ólíkt

  • Tileinka sér opið hugarfar og vilja til að spyrja spurninga til að fá upplýsingar um það sem gestir kunna að þurfa á að halda fyrir dvöl sína

Airbnb tók saman innsýn frá gestgjöfum, gestum og sérfræðingum svo að þú getir sýnt samkennd í verki þegar þú tekur á móti gestum og tekið vel á hverjum og einum. Frá uppsetningu skráningar til umsagnar geta þessar ráðlögðu aðgerðir hjálpað þér að draga úr óbeinni hlutdrægni og skapað tengsl.

Fyrir bókun: Útbúðu skráningarlýsingu sem einkennist af samkennd

Með því að taka skýrt fram að þú takir vel á móti fólki af ólíkum bakgrunni getur þú hjálpað gestum úr jaðarsettum hópum að líða vel og veitt þeim hvatningu til að bóka eignina þína. Í gegnum samtöl okkar við gesti höfum við lært að fólk úr þessum hópum leitar sérstaklega að merkjum um opin viðhorf í skráningarlýsingum áður en gengið er frá bókun.

Hér eru nokkrir hlutir sem þú getur gert til að gefa til kynna að þú sért gestgjafi sem tekur á móti gestum án aðgreiningar:

  • Greindu skýrt frá því í fyrstu setningunum í skráningarlýsingunni að þú bjóðir fólk af öllum bakgrunni velkomið (dæmi hér að neðan).

  • Lýstu skýrt frá aðgengiseiginleikum eignarinnar og vertu með nýlegar myndir.

  • Settu inn persónufornöfn þín (t.d. hún, hann, hán) við notandalýsinguna. Þetta er leið til að sýna hvernig þú vilt láta ávarpa þig og gefur einnig til kynna að þér sé annt um að nota það persónufornafn sem gestir kjósa.

  • Bjóddu hraðbókun til að gera gestum kleift að bóka eignina þína án forsamþykkis. Þetta gefur einnig til kynna að þú getir tekið á móti öllum sem uppfylla bókunarskilyrðin hjá þér.

  • Bjóddu forsamþykki og hvatningu til gesta sem hafa samband við þig fyrir bókun. Við höfum tekið eftir því að gestir hafa stundum samband við gestgjafa áður en þeir bóka til að athuga hvort þeir verði samþykktir og vel verði tekið á móti þeim.

  • Áður en þú hafnar bókunarbeiðni gests skaltu velta vandlega fyrir þér ástæðu þess. Myndi þér líða vel með að útskýra það augliti til auglitis fyrir gestinum þínum?

Ábending: Segðu meira frá þér og áhugamálum þínum í notanda- og skráningarlýsingunni til að gefa gestum tækifæri til að tengjast þér.

Þú getur prófað að nota svipaðar yfirlýsingar um fordómaleysi og aðrir gestgjafar nota í sínum skráningarlýsingum. Við ræddum við meðlimi ráðgjafaráðs gestgjafa til að fá þessi dæmi:

  1. Peter frá San Francisco skrifar: „Heimilið mitt er öruggt rými fyrir fólk úr minnihlutahópum og jaðarsettum hópum. Ég tek á móti gestum af öllum kynþáttum, trúarbrögðum, kyni og kynhneigðum.“

  2. „Önnur ljósmyndin í skráningunni minni sýnir minnisvarða þar sem stendur: „Þú tilheyrir“,“ segir Shinya frá Osaka í Japan. Shinya er einnig með ljósmynd þar sem segir: „Ég virði fjölbreytni og samkennd,“ sem yfirlýsingu. Þú getur einnig sett slík skilaboð í myndatexta.

Fyrir komu: Láttu alla gesti finna að þeir séu velkomnir

Þegar eignin þín hefur verið bókuð skaltu senda gestum þínum hlýleg skilaboð. Hér skiptir sköpum að sýna samkennd og hafa opin huga.

  • Sérsníddu kynningarskilaboðin þín með upplýsingum úr notandalýsingu gestsins. Þetta geta verið spurningar um áhugasvið viðkomandi, heimabæ og áhugamál.

  • Notaðu hlutlaust málfar varðandi kyn og kynhneigð þegar þú vísar til gesta þinna. Best er að forðast að draga ályktanir um kyn eða sambandsstöðu fólks.

  • Ef gestur spyr út í aðgengi, skaltu veita svör og spyrja hvort viðkomandi þarfnist einhvers annars.

Ábending: Prófaðu að senda gestum þínum skilaboð þar sem þú spyrð: „Hvað get ég gert svo að dvöl þín verði örugglega góð?“

Ef þú þarft innblástur getur þú skoðað skilaboð annarra gestgjafa til gesta. Hér eru tvö dæmi:

  1. Mikael frá Falcarragh á Írlandi segist leggja áherslu á að vera hlýlegur í samskiptum. „Ég þakka gestum alltaf fyrir að óska eftir gistingu í eigninni okkar,“ segir hann. „Þá nefni ég að ég muni hafa samband við viðkomandi þegar nær dregur heimsókninni, óska góðs dags og [segi gestinum] að viðkomandi skuli ekki hika við að hafa samband ef eitthvað vantar í millitíðinni.“

  2. Susan frá Denver skrifar: „Heimili okkar er heimili þitt. Láttu fara vel um þig. Gerðu þetta rými að þínu eigin. Ef þú ert með hugmyndir til að bæta upplifun gesta okkar skaltu láta okkur vita.“

Eftir innritun: Tryggðu að gestum líði vel

Gestir, einkum þeir úr jaðarsettum hópum, hafa látið í ljós að eftirfarandi geti orðið til þess að þeim finnist þeir velkomnari:

  • Bjóddu sjálfsinnritun þegar þú getur en spurðu gesti hvort þeir vilji frekar innrita sig með aðstoð gestgjafa.
  • Ekki heimsækja gesti að óþörfu. Veittu þeim þess í stað næði og gerðu þeim ljóst að þú sért til taks (í eigin persónu eða á Netinu) ef þörf krefur.

Ábending: Láttu fylgja með mikilvægar upplýsingar um eignina í húsreglunum svo að gestir geti nálgast þær á stafrænu sniði.

Eftir útritun: Gefðu gestum umsögn á hlutlausan hátt

Umsagnir eru undirstaða trausts í samfélagi Airbnb. Með því að skrifa umsögn um gestinn gefst þér tækifæri til að sýna þakklæti þitt og veita gagnlegar athugasemdir.

  • Gerðu sömu kröfur til allra gesta.

  • Taktu á móti gestum sem eru nýjir á Airbnb þegar þú getur og gefðu viðkomandi umsögn að dvöl lokinni. Að hafa umsögn skiptir miklu máli upp á að gestir geti gengið frá nýjum bókunum.

  • Hvettu gesti til að skrifa umsagnir. Við höfum tekið eftir því að ferðalangar úr jaðarsettum hópum lesa oft umsagnir áður en þeir bóka til að komast að því hvort tekið hafi verið vel á móti öðrum gestum eins og þeim.

Gættu þess að sýna samkennd í verki, sérstaklega ef þú ert nýr gestgjafi. Mundu að mikilvægustu atriðin þegar kemur að því að taka á móti öllum gestum eru að spyrja spurninga um þarfir gesta þinna og halda samskiptum opnum.

Þú getur opnað dyrnar fyrir samkennd með því að spyrja gesti þína einfaldrar spurningar eins og: „Hvað þarftu til að láta þér líða vel í eigninni minni?“ Með þessum hætti getur þú vonandi auðveldað gestum að opna dyrnar hjá þér í bókstaflegum skilningi orðsins og njóta dvalarinnar í eign þinni.

Aðalatriði

Airbnb
27. jún. 2022
Kom þetta að gagni?