Haltu áfram til að sjá tillögur að niðurstöðum

  Hvernig eignin er gerð þægileg fyrir fjarvinnufólk

  Þægindi á borð við hratt þráðlaust net og sérstök vinnuaðstaða geta vakið áhuga gesta.
  Höf: Airbnb, 11. maí 2022
  3 mín. lestur
  Síðast uppfært 11. maí 2022

  Aðalatriði

  Fjarvinna verður sífellt algengari á mörgum stöðum og við höfum tekið eftir miklum breytingum á því hvernig og hvers vegna fólk ferðast. Þetta gæti orðið til þess að fleiri gestir fái áhuga á eignum sem gera þeim kleift að sinna starfi sínu hvar sem er.

  Svona útvegar þú réttu þægindin, setur upp sérstaka vinnuaðstöðu og kynnir eignina þína.

  Bjóddu hratt og áreiðanlegt þráðlaust net

  Nettenging er ómissandi fyrir fjarvinnufólk sem leitar að hröðu, áreiðanlegu þráðlausu neti fyrir myndsímtöl og önnur verkefni.

  Þú getur staðfest hraða á þráðlausu neti fyrir skráninguna þína án þess að fara úr Airbnb appinu með því að nota hraðaprófið fyrir þráðlaust net. Með þessu tóli getur þú prófað hraðann á þráðlausa netinu á staðnum og sýnt hann svo beint á skráningarsíðunni. Þetta hjálpar þér að ná til fleiri gesta sem þurfa á hraðri tengingu að halda.

  Ef þráðlausa netið er hægt sums staðar í eigninni má auka afköstin með þráðlausum endursendum og mögnurum. Einnig gæti verið gott að kynna sér hvernig hægt er að fylgjast rafrænt með beininum til að vakta afköst þráðlausa netsins.

  Taktu hraðaprófið fyrir þráðlaust net

  Útbúðu sérstaka vinnuaðstöðu

  Helstu þægindin sem gestir leita að er sérstök vinnuaðstaða og það er auðveldara en þú heldur að útbúa hana. Til að bæta þessum þægindum við skráninguna þína þarftu að hafa borð eða skrifborð sem er aðeins notað til vinnu, nálæga rafmagnsinnstungu og þægilegan stól.

  Pör sem sinna fjarvinnu gætu þurft tvö aðskilin rými og því gæti verið góð hugmynd að koma upp tveimur vinnusvæðum. Þú getur látið gesti vita af þessum eiginleikum með því að velja sérstaka vinnuaðstöðu í þægindahluta skráningarinnar og með því að leggja áherslu á vinnusvæði í skráningarlýsingunni, á ljósmyndum og í myndatexta.

  Gestgjafar sem hafa ekki pláss fyrir sérstaka vinnuaðstöðu geta samt tekið á móti fjarvinnufólki. Þegar gestur þarf að sinna fjarvinnu „skipti ég út einum eldhússtólnum fyrir skrifborðsstól,“ segir Emilia, ofurgestgjafi í Orono, Maine. „Mér finnst stóllinn einn og sér skipta höfuðmáli.“

  Taktu til greina önnur gagnleg þægindi

  Gestir meta mikils litlu atriðin sem gera fjarvinnu ánægjulegri og árangursríkari, án tillits til þess hvort boðin sé sérstök vinnuaðstaða.

  Hér eru nokkrir möguleikar sem gætu komið sér vel fyrir eignina:

  • Önnur vinnusvæði. Setustofa, borðstofa eða verönd getur verið góð tilbreyting og gert mörgum kleift að vinna samtímis.
  • Vinnuvistfræði. Standur fyrir fartölvu, vinnuhollur skrifborðsstóll og stillanleg fóthvíla geta gert langa vinnudaga þægilegri.
  • Góð lýsing. Þótt best sé að hafa dagsbirtu frá gluggum eða glerhurðum er hægt að lýsa upp vinnusvæði með borðlampa.
  • Kaffivél og teketill. Margir gestir kunna að meta koffínskammt til að koma sér af stað. Þú getur meira að segja boðið upp á te og kaffi og til að ganga enn lengra mælir lífstílsbloggarinn Elsie, ofurgestgjafi í Nashville, Tennessee, með því að boðið sé upp á ýmsa möguleika við upphellinguna eins og franska pressukönnu og sjálfvirka kaffivél.
  • Skrifstofuvörur. Oft getur komið sér vel að vera með nýja penna og minnisblokkir en eignin gæti skarað fram úr ef þú ert líka með prentara.
  • Tækniaðstoð. Vinnuaðstaðan þín getur batnað til muna ef þú ert með tölvuskjá, snjallhátalara og nóg af hleðslutækjum fyrir síma.
  • Bakgrunnur fyrir myndfundi. Áhugavert veggfóður, plöntur eða listaverk sem er staðsett í bakgrunni vinnusvæðis getur höfðað til gesta sem eru oft á myndfundum.
  • Þögn. Gardínur, mottur, teppi, púðar og önnur efni geta dregið úr truflandi hávaða.

  Kynntu vinnuvænu eignina þína

  Þegar þú hefur gert eignina þína þægilega fyrir fjarvinnufólk er mikilvægt að uppfæra skráningarlýsinguna, þægindin og myndirnar svo að gestir viti að þú sért með vinnuvæna eign.

  • Nýttu þér leitarsíur. Margir gestir nota síur til að finna eignir með þægindunum sem þeir vilja þegar þeir skoða skráningar. Mundu því að haka við sérstaka vinnuaðstöðu og annað sem þú býður.
  • Uppfærðu myndirnar þínar og myndatexta. Þar sem gestir gætu skoðað myndir af eigninni þinni áður en þeir lesa lýsinguna skaltu gæta þess að myndirnar sýni vinnuaðstöðuna sem þú veitir. Lærðu að taka frábærar myndir
  • Leyfðu gestum að ímynda sér hvernig það er að vera á staðnum. Passaðu að skráningarlýsingin sýni hvernig eignin taki tillit til fjarvinnufólks. Ef þú vilt skara mikið fram úr getur þú sett þær upplýsingar í skráningartitilinn.

  Einnig getur verið gott að senda gestum skilaboð áður en þeir koma á staðinn. Ef þú býður upp á hluti eins og kaffi eða tölvuskjá er gott að minna gesti á það þannig að þeir eigi betra með að skipuleggja sig.

  Við vonum að þessar ábendingar hjálpi þér að útbúa notalegt pláss. Þegar þú hefur þarfir gesta þinna í huga geturðu boðið þægilega (og afkastamikla) dvöl fyrir fjarvinnufólk.

  Aðalatriði

  Airbnb
  11. maí 2022
  Kom þetta að gagni?