Hjálpaðu skráningu gestgjafa að skara fram úr
Miðlaðu reynslu þinni og þekkingu sem gestgjafi til að setja saman frábæra skráningarsíðu. Aðstoðaðu gestgjafann við að útbúa nýja skráningarsíðu eða uppfæra fyrirliggjandi skráningu.
Gestir hafa tilhneigingu til að dæma eign út frá skráningarmyndum hennar, lýsingu og umsögnum gesta þegar þeir ákveða á milli gististaða.* Leggðu áherslu á þessa þætti ásamt þægindum og verði til að stuðla að sem bestum árangri.
Myndir
Notendarannsóknir hafa sýnt að hágæðamyndir eru einn helsti þátturinn sem gestir hafa í huga við val á gistingu. Ef gestgjafi er ekki með nýlegar atvinnuljósmyndir af eigninni getur þú útskýrt mikilvægi þeirra og mælt með ljósmyndara eða ljósmyndaþjónustu Airbnb.
Skráningarlýsing
Gestgjafar ættu að hafa í huga að skráningarlýsingin skiptir höfuðmáli þegar kemur að árangri skráningarinnar. Jimmy, samgestgjafi í Palm Springs í Kaliforníu, segir að hægt sé að „gera sem mest úr öllum skráningarlýsingum“ og því býður hann alltaf upp á aðstoð við að skrifa þær.
„Ég einbeiti mér að staðreyndunum,“ segir Jimmy. „Annaðhvort ertu með saltvatnslaug eða ekki. Hverfið er líflegt eða ekki. Mörg lýsingarorð byggjast á tilfinningum sem eru huglægar og leiða ekki til nákvæmrar lýsingar. Með því að lýsa staðreyndunum veitir þú réttar væntingar.“
Þægindi
Gestir sía oft leitarniðurstöður til að finna skráningar sem bjóða upp á tiltekin þægindi. Vinsælustu þægindin sem leitað er að eru meðal annars sundlaug, þráðlaust net, gjaldfrjáls bílastæði, eldhús, heitur pottur, loftræsting, þvottavél og sjálfsinnritun.**
Leiddu hugann að því hvað reyndist vel í öðrum skráningum í þinni umsjón og miðlaðu þekkingu þinni með gestgjöfum. Þetta gætu verið atriði eins og:
- Að ganga úr skugga um að öll þægindi í boði séu tilgreind á skráningarsíðunni
- Að útskýra hvað felst í því að bæta við eða uppfæra þægindi eins og þráðlaust net eða snjalllás
- Að veita dæmi um viðbrögð gesta við uppfærslum á öðrum skráningum í þinni umsjón
- Að fara yfir öryggis- og aðgengiseiginleika með gestgjöfum til að komast að hverju mætti bæta við skráninguna
Verðstefna
Gestgjafar hafa ekki alltaf reynslu af verðlagningu. Þú getur nýtt þér staðbundna sérþekkingu þína og verðtól Airbnb til að veita leiðbeiningar. Verðstefnur gætu falið í sér:
- Að bjóða viku- eða mánaðarafslátt
- Að lækka eða taka út ræstinga- eða gæludýragjöld
- Að breyta gistináttaverði í takt við árstíðabundna eftirspurn
Saman skulið þið komast að þeirri nálgun sem hentar ykkur best. Dominic, samgestgjafi í Cornwall á Englandi, mælir með því að uppfæra gistináttaverðið reglulega.
„Ég fer yfir eignirnar í hverri eða annarri hvorri viku,“ segir hann. „Þú áttar þig betur á verðmöguleikunum eftir því hversu hratt þær bókast. Ef fólk skoðar skráningarnar en bókar ekki, er verðið mögulega of hátt.“
Umsagnir gesta
Margir gestir reiða sig á umsagnir annarra gesta til að finna eignina sem uppfyllir þarfir þeirra. Útskýrðu fyrir gestgjöfum að með því að svara umsögnum fá þeir tækifæri til að sýna öðrum gestum að þeim sé annt um upplifun þeirra og opnir fyrir tillögum.
Komið ykkur saman um hver sér um að svara umsögnum gesta. Kjósi gestgjafinn að gera það sjálfur getur þú veitt dæmi um góð svör við ýmsum viðfangsefnum.
- Þakkir til gesta: „Takk fyrir umsögnina! Okkur þykir vænt um að þú hafir gefið þér tíma til að minnast ferðarinnar.“
- Upplýsingar um endurbætur: „Okkur þykir leitt að rúmin hafi verið óþægileg. Góður nætursvefn gesta er okkur mikilvægur og því höfum við bætt við yfirdýnum.“
„Ég geri ekki ráð fyrir því að neinn gestgjafi sé með 100% gallalausar umsagnir,“ segir Andrew, gestur sem er einnig ofurgestgjafi í Berlín. „Ég er miklu hrifnari af þeim sem taka gagnrýni alvarlega og af opnum hug.“
Mundu að uppfæra skráningarlýsinguna og ljósmyndirnar hvenær sem þú eða gestgjafinn gerið endurbætur á eigninni.
*Samkvæmt rannsóknum Airbnb sem gerðar voru í nóvember og desember 2023 og náðu yfir tæplega 7.000 gesti í Ástralíu, Brasilíu, Kanada, Frakklandi, Þýskalandi, Mexíkó, Suður-Kóreu, Spáni, Bretlandi og Bandaríkjunum.
**Samkvæmt innanhússgögnum Airbnb um þægindin sem oftast var leitað að um allan heim frá 1. janúar til 30. júní 2024.
Þjónusta samgestgjafa stendur eins og er til boða í Ástralíu, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Japan, Mexíkó, Suður-Kóreu, Spáni, Bretlandi (þar sem hún er rekin af Airbnb Global Services), Kanada, Bandaríkjunum (þar sem hún er rekin af Airbnb Living LLC) og Brasilíu (þar sem hún er rekin af Airbnb Plataforma Digital Ltda).
Upplýsingarnar í þessari grein gætu hafa breyst frá birtingu.