Skýr og einföld útritun
Útritun ætti að krefjast mjög lítillar fyrirhafnar af hálfu gesta og gestgjafa. Bættu leiðbeiningunum við skráningarsíðuna þína og Airbnb sendir þær sjálfkrafa til gesta, kvöldið fyrir útritun.
Skýrar útritunarleiðbeiningar
Þú bætir við útritunarleiðbeiningum á svipaðan hátt og þú myndir gera fyrir almennar húsreglur. Útbúðu lista yfir það sem þarf að sinna fyrir útritun með því að velja úr þessum lista yfir algeng verk:
- Komdu notuðum handklæðum fyrir á einum stað
- Hentu ruslinu
- Slökktu á ljósum og tækjum
- Læstu á eftir þér
- Skilaðu lyklum
Þér gefst kostur á að bæta við upplýsingum um hvert verk. Þú gætir til dæmis tilgreint að gestir eigi að henda úrgangi í aðra körfuna en endurvinnanlegu efni í hina. Þú getur einnig tekið fram beiðnir sem eiga sérstaklega við um heimilið, eins og að breiða yfir grillið eftir notkun.
Gestir geta skoðað útritunarleiðbeiningar og húsreglur áður en þeir bóka tiltekna eign. Að bókun lokinni geta þeir nálgast útritunarleiðbeiningar á ferðaflipanum ásamt húsreglum, upplýsingum um þráðlaust net og öðrum mikilvægum upplýsingum.
Gestir gera ráð fyrir einfaldri útritun, án þess að þurfa að sinna hreingerningum en samkvæmt grunnreglum gesta ættu þeir ekki að skilja við eignina í ástandi sem krefst mikilla eða ítarlegra þrifa.
„Við viljum halda útritunarferlinu okkar eins einföldu og mögulegt er,“ segir Keshav, meðlimur ráðgjafaráðs gestgjafa í Nýju-Delí. „Ræstiþjónustan sér um allt sem gera þarf.“
Sjálfvirkar áminningar um útritun
Við sendum gestum sjálfkrafa áminningu um útritunartíma og leiðbeiningar. Hún sendist sem tilkynning í síma viðkomandi, deginum fyrir útritun kl. 17:00 á tímabelti eignarinnar sem dvalið er í.
Til að fá þessa áminningu þurfa gestir að vera með Airbnb appið uppsett hjá sér og hafa kveikt á tilkynningum í síma. Þegar gestir hafa lokið útritun geta viðkomandi látið þig vita með einu pikki eða smelli.
Það gæti verið góð hugmynd að útskýra hvers vegna það sé mikilvægt að útrita sig á tilsettum tíma. „Ég læt gesti vita að ræstitæknirinn mæti kl. 11:00 til að búa eignina undir næstu gesti, þannig að þeir átti sig á mikilvægi þess að útritun fari fram á tilsettum tíma,“ segir Joh, ofurgestgjafi í San Francisco.
Útritunarkort
Útritunarkort er þægileg leið til að senda útritunarupplýsingar til gesta þinna. Eftir að þú tilgreinir útritunarleiðbeiningar getur þú bætt útritunarkorti við hraðsvar eða tímasett skilaboð. Kortið inniheldur hlekk á útritunarleiðbeiningar þínar.
Þótt Airbnb sendi sjálfkrafa áminningu til gesta kvöldinu fyrir útritun hefur þú alltaf fulla stjórn á því hvernig þú hagar samskiptum við gesti þína. Það gæti verið góð hugmynd að útbúa tímasett skilaboð til að senda áminningu um útritun beint til gesta þinna í innhólfið á Airbnb ef svo kynni að vera að viðkomandi séu ekki með appið eða hafi slökkt á tilkynningum í síma.
Athugasemdir um útritun
Eftir að gestir hafa útritað sig geta þeir gefið einkunn fyrir upplifun sína af samskiptum við gestgjafann og tilgreint það sem gekk vel og hvað mætti betur fara. Einn valkosturinn er að tilkynna „of mörg verk til að sinna fyrir útritun“. Skráningar sem fá ítrekað lágar einkunnir vegna óraunhæfra verka til að sinna gætu verið teknar út af Airbnb.
Gestir velja einnig heildareinkunn fyrir dvöl sína. Athugasemdir og stjörnueinkunn fyrir tiltekna þætti eins og samskipti, hafa ekki áhrif á stöðu ofurgestgjafa.