Gestum líður vel í snyrtilegri eign

Snyrtileg eign skapar þægindi fyrir gesti og auðveldar þrif fyrir þá sem sinna ræstingum.
Airbnb skrifaði þann 10. feb. 2020
3 mín. lestur
Síðast uppfært 8. mar. 2023

Gestir kunna að meta hreint og skipulagt rými. Þessar ábendingar um skipulag eignarinnar geta nýst þér óháð því hvort þú tekur á móti gestum í sérherbergi eða á heilu heimili.

Hreinni eign en nokkru sinni fyrr

„Ég hef tekið eftir því að því minna af lausamunum sem eru til staðar í eigninni, því hreinni og snyrtilegri virðist hún,“ segir Kath, gestgjafi í Albany, Ástralíu. Hreinlæti skiptir gesti miklu máli. Samkvæmt gögnum Airbnb er óhrein eign ein af helstu ástæðunum fyrir neikvæðri umsögn.

„Það er mikilvægt að halda rýminu snyrtilegu og lausamunum í lágmarki,“ segja Jay og Lynne, ofurgestgjafar í Blanco, Texas. „Það auðveldar þrif, veitir gestum pláss fyrir eigur sínar og kemur frekar í veg fyrir að þeir gleymi þeim vegna þess að þeir sjá þær þegar litið er yfir herbergið fyrir brottför.“

Nægt pláss fyrir eigur gesta

Gestir þurfa pláss til að ganga frá fötunum sínum, snyrtivörum og öðrum eigum. Þú gætir þurft að losa þig við óþarfa hluti til að halda ákveðnum skúffum og skápum tómum. „Ef ég hef ekki klæðst því eða notað í eitt eða tvö ár, losa ég mig við það,“ segir Sarah, gestgjafi í Sayulita, Mexíkó.

Það gæti verið góð hugmynd að bjóða enn meira pláss, einkum ef þú tekur á móti gestum í langtímagistingu, eins og Jessica gestgjafi frá Seúl í Suður-Kóreu. „Ég er viss um að fólk kemur með bækur, minjagripi, fjölskyldumyndir og sitt eigið „smádót“ sem það vill hafa á náttborði, skrifborði eða hillu,“ segir hún.

Skipulag þæginda

Finndu bestu leiðina til að koma tilteknum þægindum fyrir þannig að gestir eigi auðvelt með að nálgast þau. Gestgjafinn Chantal frá Yvignac-la-Tour í Frakklandi, er með sérstakan gestaskáp: „Í honum er allt frá litlum vatnsflöskum til salernispappírs og allt er skipulagt eftir hillu og flokki í aðskildum körfum.“

Taktu saman lista yfir rúmföt sem þú átt í eigninni og aðrar birgðir og gefðu eða losaðu þig við allt sem er ekki í topp-standi.

Áhersla lögð á eldhús og baðherbergi

„Persónulega kann ég ekki við þegar hlutirnir í eldhúsinu líta út fyrir að hafa allir verið keyptir á góðgerðamarkaði eða endurnýttir annars staðar frá,“ segir Alexandra, gestgjafi í Lincoln, Kaliforníu.

Útvegaðu það sem gestir þurfa í raun og veru á að halda í eldhúsinu og á baðherbergjunum og losaðu þig við restina. Flest fólk kann að meta hluti eins og flöskuupptakara og hárnæringu en það þarf ekki þrjár tegundir af hverjum hlut.

Engir afgangar

Manni gæti fundist það minni sóun að endurnýta birgðir sem fyrri gestir hafa skilið eftir fyrir næstu gesti, en það er ekki sniðugt. Michelle, gestgjafi í Chicago geymir aðeins mat- og drykkjarvörur „í upprunalegum og lokuðum umbúðum“, svo sem „flöskuvatn og dressingar í einnota pakkningum.“

Gullni meðalvegurinn

„Allt í herberginu ætti að þjóna einhverjum tilgangi,“ segir Kelly, gestgjafi í Austin, Texas. „Það þýðir samt ekki að herbergið geti ekki verið stílhreint eða hlýlegt og notalegt.“

Gullni meðalvegurinn á milli hagnýtni og notalegheita er mismunandi frá einum stað til annars, en hér eru nokkrar ábendingar til að hafa í huga:

  • Ekki gera þetta of persónulegt. Slepptu hlutum eins og fjölskyldumyndum, föndri frá börnunum og klæðnaði eða skóm á svæðum sem gestir hafa afnot af.
  • Létt og listrænt yfirbragð kemur sér vel. Innrammað listaverk eftir listamanneskju frá svæðinu, skemmtileg mubla eða sérstakur spegill geta gert gæfumuninn.
  • Bættu við skreytingum. Hlutir eins og plöntur og púðar gera eignina heimilislegri, svo lengi sem þeir fari ekki fram úr hófi og sé komið fyrir af kostgæfni.
Airbnb
10. feb. 2020
Kom þetta að gagni?