Að draga úr útsetningu fyrir kolsýringi í eigninni þinni

Settu upp kolsýringsskynjara og uppfærðu skráningarsíðu þína til að láta gesti vita.
Airbnb skrifaði þann 29. mar. 2022
3 mín. lestur
Síðast uppfært 29. ágú. 2023

Útsetning fyrir kolsýringi (CO) getur leitt til kolsýringseitrunar sem getur verið banvæn. Kolsýringsskynjarar eru hannaðir til að vara þig við ef mikið magn lofttegundarinnar safnast upp.

Við hvetjum alla gestgjafa til að kynna sér hætturnar sem felast í útsetningu fyrir kolsýringi og koma fyrir skynjurum til að standa vörð um öryggi gesta. Þú getur óskað eftir einum skynjara frá Airbnb ef þú ert með virka skráningu.

Hvað er kolsýringur?

Kolsýringur er litlaus og lyktarlaus lofttegund. Heimilistæki sem brenna eldsneyti, svo sem ofnar, eldavélar, vatnshitarar og færanlegir rafalar geta myndað kolsýring. Hann getur einnig myndast þegar kveikt er upp í kolum eða við.

Þegar kolsýringur myndast innandyra eða í lokuðum rýmum er hann eitraður fyrir mannfólki og dýrum sem anda honum að sér. Mikil útsetning fyrir kolsýringi getur reynst banvæn. Kolsýringur er ekki það sama og koltvísýringur eða CO2, sem finna má í kolsýrðum drykkjum og slökkvitækjum.

Ástæða þess að setja upp kolsýringsskynjara

Ekki er hægt að greina kolsýring nema með tilheyrandi skynjara. Með því að setja upp einn eða fleiri kolsýringsskynjara má vara gesti og aðra við, þar á meðal þig og fjölskyldu þína, ef hættulega mikill kolsýringur myndast.

Hefðbundnir reykskynjarar greina ekki kolsýring en skynjarar sem greina hvort tveggja geta reynst vel. Lestu merkimiða framleiðandans vandlega þegar þú velur skynjara.

Ef einhver þessara þæginda eða eiginleika eru í eign þinni gæti kolsýringur verið til staðar:

  • Heimilistæki sem brenna kolum, bensíni, steinolíu, metan, jarðgasi, própan eða við

  • Aðliggjandi bílskúr, jafnvel þótt öll heimilistæki þín séu rafknúin

  • Rafall í notkun nálægt hurðum eða gluggum

  • Gas- eða kolagrill í notkun nálægt hurðum eða gluggum

  • Arinn

Sérfræðingar eins og fólk úr röðum Alþjóðasambands slökkviliðsstjóra mæla með því að setja upp kolsýringsskynjara á hverri hæð tiltekinnar eignar.

Svona getur þú komið í veg fyrir útsetningu fyrir kolsýringi

Alþjóðasamband slökkviliðsstjóra mælir með því að grípa til þessara viðbótarráðstafana til að koma í veg fyrir útsetningu fyrir kolsýringi:

  1. Prófaðu skynjarana í hverjum mánuði til að tryggja að þeir virki. Yfirleitt þarf að skipta um rafhlöður á eins, fimm eða tíu ára fresti. Athugaðu framleiðsludag á bakhlið skynjarans og fylgdu leiðbeiningum í notendahandbókinni.

  2. Gættu þess að öll tæki séu sett upp í samræmi við staðbundnar reglugerðir og leiðbeiningar framleiðanda. Fagfólk ætti að sjá um uppsetningu flestra tækja sem brenna eldsneyti.

  3. Láttu hreinsa og skoða allan búnað sem brennir eldsneyti reglulega. Ofnar, eldavélar, þurrkarar og skorsteinar eða loftop þarfnast reglulegs eftirlits. Það tryggir að búnaðurinn virki sem skyldi, loftflæði sé gott og engar sprungur, ryð eða blettir séu til staðar.

  4. Gættu þess að loftrásir og -leiðslur sem tengdar eru við tæki eins og vatnshitara, háfa og þurrkara séu opnar og lausar við stíflur.

  5. Gættu þess að opna alveg loftspjaldið eða loftopið þegar þú notar arinn eða annan viðar- eða viðarkúluhitagjafa. Ekki loka fyrr en búið er að slökkva eldinn.

  6. Veittu gestum skýrar leiðbeiningar. Láttu fylgja með ítarlegar upplýsingar í húsleiðbeiningunum varðandi örugga notkun heimilstækja og annars búnaðs í eigninni. Komdu prentuðu afriti af leiðbeiningunum fyrir í eigninni þar sem gestir geta auðveldlega nálgast þær, svo sem á borðstofuborðinu eða borðplötu eldhúsinnréttingarinnar.

  7. Láttu gestum í té neyðarnúmer slökkviliðs, lögreglu og sjúkrahúsa á staðnum.

Svona uppfærir þú skráningarsíðuna

Með því að tilgreina að kolsýringsskynjari sé til staðar í eign þinni lætur þú gesti vita að þér sé annt um öryggi þeirra. Bættu við upplýsingum um þá skynjara sem þú hefur sett upp í hlutanum fyrir öryggisbúnað í eigninni. Upplýsingarnar sem þú tilgreinir koma til með að birtast á skráningarsíðunni og í tölvupóstum sem gestir fá fyrir innritun.

Gestir sem leita á Airbnb geta einnig síað út eignir með kolsýringsskynjara. Með því að setja upp kolsýringsskynjara og uppfæra skráningarsíðuna stuðlar þú ekki aðeins að öryggi heldur einnig fleiri bókunum.

Þessi grein fjallar um almennar öryggisleiðbeiningar og er ekki tæmandi. Taktu mið af sérkennum eignar þinnar, kynntu þér lög á staðnum og ráðfærðu þig við eldvarnasérfræðinga.

Upplýsingarnar í þessari grein gætu hafa breyst frá birtingu.

Airbnb
29. mar. 2022
Kom þetta að gagni?