Haltu áfram til að sjá tillögur að niðurstöðum

  Nýjar viðmiðunarreglur um að semja skráningartitil

  Uppfærðu titilinn þinn til að sýna hvað eign þín hefur að bjóða í leitarniðurstöðum.
  Höf: Airbnb, 17. jún. 2022
  3 mín. lestur
  Síðast uppfært 22. jún. 2022

  Aðalatriði

  • Hafðu skráningartitilinn stuttan þannig að hann komist fyrir á farsímaskjá

  • Forðastu að nota tjákn og að skrifa með hástöfum

  Nýlega gerðum við stærstu breytingu sem gerð hefur verið á Airbnb í áratug og hluti af því sem fólst í nýrri hönnun okkar var að fjarlægja skráningartitla gestgjafa úr leitarniðurstöðum. Ætlunin var sú að birta alla titla á samræmdu sniði þannig að gestir ættu auðveldara með að lesa þá, óháð tungumáli eða tegund tækis.

  Okkur bárust margar athugasemdir tengdar breytingunum, þar á meðal fjöldi beiðna um að birta skráningartitla aftur í leitarniðurstöðum gesta. Við höfum skilning fyrir áhuganum á því en skráningartitillinn er eitt af því fyrsta sem birtist gestum í leitarniðurstöðum og veitir tækifæri á að undirstrika það sem gerir eignina einstaka.

  Skráningartitlar birtast gestum aftur í leitarniðurstöðum frá og með 30. júní. Þessar nýju viðmiðunarreglur eru einnig ætlaðar til þess að hjálpa þér að semja skráningartitil sem er líklegur til árangurs og vekur athygli í leit ásamt því að gefa gestum réttar væntingar og vekja áhuga þeirra á að bóka eignina.

  Stuttir titlar henta best

  Þegar gestir leita á Airbnb nota þeir alls kyns tæki með skjáum af mismunandi stærðum. Skráningartitill sem kemur vel út í vafra gæti verið of langur fyrir gesti sem fletta í gegnum skráningar í appinu.

  Lengri titlar eru sjálfkrafa styttir í leitarniðurstöðum og eftirstandandi hluta titilsins er skipt út fyrir úrfellingarmerki. „Sveitakofi með útsýni yfir stöðuvatn, eldstæði og bátakví“ verður til dæmis að „Sveitakofi með útsýni yfir...“

  Takmörkun á fjölda stafa tryggir að skráningartitill þinn birtist í heild sinni, bæði á tölvu og fartækjum. Gestir sem eru á ferðinni leita yfirleitt úr farsímum sem þýðir að þeim birtast aðeins 32 stafir. Sé titill þinn lengri en 32 stafir skaltu hafa mikilvægustu upplýsingarnar fremst.

  Hér eru þrjú góð dæmi um stutta skráningartitla:

  • Nútímaleg loftíbúð í miðbænum
  • Fjallaafdrep fyrir kokka
  • Villa í Año Nuevo við ströndina

  Titlar með stórum upphafsstöfum eru auðlesanlegri heldur en titlar sem innihalda aðeins hástafi

  Hefðbundnar málfræðireglur gera ráð fyrir að hástafur sé aðeins notaður í upphafi setningar og það á einnig við skráningartitilinn. Hástafur í upphafi bróðurparts orða skýtur skökku við og setning sem er einungis skrifuð með hástöfum gæti hljómað eins og hróp.

  Forðastu að nota hástaf í upphafi orða nema að um sé að ræða eiginlegt nafn eins og staðarnafn til að veita gestum betri leitarupplifun. Einnig getur þú gert undantekningar fyrir skammstafanir, svo sem RVK eða flugvallarheiti eins og KEF.

  Hér er dæmi um hvernig ætti ekki að nota hástafi í skráningartitli:

  • NÝJAR innréttingar RISASTÓR SUNDLAUG Frábært Útsýni

   Hér eru þrjú góð dæmi um skráningartitla þar sem hástafir eru notaðir:

   • Strandskáli við Bondi-strönd
   • Rómantískt, viktorískt gestaherbergi
   • Umhverfisvænt stúdíó nálægt KEF

   Orð eru skýrari en tjákn

   Tjákn (emojis) og tákn geta þýtt mismunandi hluti fyrir mismunandi fólki og því gæti notkun þeirra valdið misskilningi eða verið villandi. „Þumalfingur upp“ getur til dæmis verið túlkaður sem samþykki, viðurkenning eða móðgun.

   Haltu þig við einföld orð sem eru lýsandi fyrir eign þína til að skráningartitillinn verði auðlesanlegri. Það er í góðu lagi að nota sértákn (eins og !, # eða *) en ekki ef þau eru notuð til áhersluauka (eins og !!! eða ***). Prófaðu að nota kommur, bil eða stakt skástrik til að aðskilja hugtök.

   Hér er dæmi um það sem ætti ekki að gera:

   • ****Skíða- og golfskáli****!!!

   Hér er betri útfærsla:

   • Skíða/golfskáli & einkagarður

   Nánari upplýsingar eru betri en endurtekningar

   Í flestum tilvikum er ekki nauðsynlegt að endurtaka upplýsingar sem koma nú þegar fram í leitarniðurstöðum gesta eins og borg, bæ eða fjölda rúma. Nýttu frekar skráningartitilinn til að bæta við upplýsingum sem einkenna eignina og vekja athygli á henni.

   Ef eignin er til dæmis staðsett í Buenos Aires gæti verið góð hugmynd að hafa nafn hverfisins, s.s. „Recoleta“, í skráningartitlinum. Ef hún er staðsett í Flórens á Ítalíu væri hægt að skrifa „í grennd við Uffizi“ eða annað kennileiti sem er nálægt eigninni. Slíkt gefur gestum betri hugmynd um hvar eignin er staðsett. Sé sérstakt skrifstofusvæði í eigninni gæti verið góð hugmynd að koma hugtakinu „vinnuvænt“ fyrir í skráningartitlinum.

   Þú getur sleppt því að nota orðið „nýtt“ í skráningartitlinum vegna þess að slíkar upplýsingar birtast gestum á þar til gerðu merki í leitarniðurstöðum.

   Lestu reglur Airbnb um efnisinnihald

   Upplýsingarnar í þessari grein gætu hafa breyst frá birtingu.

   Aðalatriði

   • Hafðu skráningartitilinn stuttan þannig að hann komist fyrir á farsímaskjá

   • Forðastu að nota tjákn og að skrifa með hástöfum

   Airbnb
   17. jún. 2022
   Kom þetta að gagni?