Stökkva beint að efni
  Haltu áfram til að sjá tillögur að niðurstöðum
  5. maí: Mikilvægar fréttir frá Airbnb

  5. maí: Mikilvægar fréttir frá Airbnb

  COVID-19 hefur breytt ferðaiðnaðinum. Í dag deildum við slæmum fréttum.
  Höf: Airbnb, 5. maí 2020
  8 mín. lestur
  Síðast uppfært 6. maí 2020

  COVID-19 hefur breytt grundvelli ferðaþjónustu og í dag færðum við þær slæmu fréttir að við erum að fækka starfsfólki hjá Airbnb. Í þessari viku höfum við einbeitt okkur að því að annast starfsmenn okkar og við viljum biðja ykkur um að sýna okkur skilning og þolinmæði á meðan við styðjum við bakið á þeim. Þú getur búist við eftirfarandi í næstu viku:

  • Við munum áfram bregðast við í gegnum samfélagsmiðla, félagsmiðstöðina og þjónustufulltrúa okkar
  • Við munum hafa samband við lítinn hóp samfélagsleiðtoga um allan heim til að safna saman athugasemdum og algengum spurningum
  • Brian Chesky, forstjóri okkar, mun halda gestgjafafréttir í beinni útsendingu 13. maí til að svara algengustu spurningum og fjalla um það sem skiptir ykkur mestu máli

  Við erum ennþá staðráðin í að styðja við ykkur og gesti ykkar og að byggja reksturinn aftur upp saman. Við höfum samband aftur fljótlega.

  Fyrr í dag sendi stofnandi Airbnb og forstjóri, Brian Chesky, eftirfarandi skilaboð til starfsfólks Airbnb.

  * * *

  Til: Alþjóðateymi Airbnb
  Efni: Mikilvægar fréttir

  Til allra í teyminu,

  Þetta er í sjöunda skipti sem ég tala við ykkur heiman frá. Í hvert sinn sem við höfum talað saman hef ég fært góðar og slæmar fréttir en í dag hef ég mjög daprar fréttir að færa.

  Þegar þið hafið spurt mig út í uppsagnir hef ég svarað að allt yrði skoðað. Í dag verð ég að staðfesta fækkun starfsfólks hjá Airbnb. Það er ótrúlega erfitt að standa frammi fyrir þessu hjá félagi eins og okkar þar sem hlutverk okkar snýr að því að tilheyra, og þetta verður enn erfiðara fyrir þau sem þurfa að yfirgefa Airbnb. Ég ætla að segja frá eins miklu og ég get um það hvernig ég komst að þessari ákvörðun, um það sem við gerum fyrir fólkið sem fer og það sem tekur við.

  Ég vil byrja á því að útskýra hvernig við tókum þessa ákvörðun. Saman erum við að upplifa átakanlegustu tímamót ævi okkar og við upphaf þeirra stöðvuðust alþjóðaferðalög. Rekstur Airbnb hefur orðið fyrir miklu áfalli. Gert er ráð fyrir að tekjur þessa árs verði helmingi minni en tekjur ársins 2019. Við höfum brugðist við því með hlutafjáraukningu upp á 2 milljarða Bandaríkjadali og höfum dregið verulega úr kostnaði sem snertir nánast allt sem Airbnb gerir.

  Þótt þessar aðgerðir hafi verið nauðsynlegar varð ljóst að við þyrftum að ganga enn lengra þegar við stóðum frammi fyrir tveim staðreyndum:

  1. Við vitum ekki nákvæmlega hvenær ferðalög hefjast aftur.
  2. Þegar ferðalög hefjast aftur verða þau í annarri mynd.

  Þótt við vitum að rekstur Airbnb muni ná sér að fullu eru breytingarnar sem hann verður fyrir hvorki tímabundnar né skammvinnar. Vegna þessa þurfum við að fara í grundvallarbreytingar á Airbnb með því að minnka vinnuafl í kringum hnitmiðaðari starfsstefnu.

  Segja þarf upp tæplega 1.900 starfsmönnum Airbnb af þeim 7.500 sem starfa hjá fyrirtækinu. Hér er því um að ræða 25% starfsmanna. Þar sem við höfum ekki efni á að gera allt sem við gerðum áður þá þurfti að kortleggja þennan niðurskurð til að gera starfsemina viðskiptamiðaðri.

  Hnitmiðaðri rekstur

  Ferðalög verða öðruvísi í þessum nýja heimi og við þurfum að laga Airbnb að þeim veruleika. Fólk mun vilja valkosti sem eru nær heimilinu, öruggari og á viðráðanlegra verði. En fólk þráir einnig það sem því finnst hafa verið stolið frá þeim, mannleg tengsl. Þegar við stofnuðum Airbnb snerist það um tengsl og að tilheyra. Þessi krísa hefur skerpt einbeitingu okkar um að komast nær rótum okkar, að grundvallaratriðunum, að því sem er sannanlega einstakt við Airbnb, fólk sem býður heimagistingu og upplifanir.

  Þetta þýðir að við þurfum að draga úr fjárfestingum okkar í starfsemi sem styður ekki beint við kjarnann í samfélagi gestgjafa okkar. Við erum að gera hlé á vinnu okkar á sviði samgangna and Airbnb Studios og við verðum að draga úr fjárfestingum okkar á sviði hótela og Lux.

  Þessar ákvarðanir endurspegla ekki starf fólks í þessum teymum og þær hafa ekki í för með sér að allir innan þeirra muni hætta störfum hjá okkur. Þetta hefur einnig áhrif á öll teymi hjá Airbnb. Mörg teymi verða minnkuð eftir því hve vel þau falla að framtíðarstefnu Airbnb.

  Hvernig við nálgumst fækkun starfsmanna

  Okkur þótti mikilvægt að setja skýrar meginreglur, með hliðsjón af grunngildum okkar, um það hvernig við færum að við fækkun starfsmanna. Við höfðum eftirfarandi að leiðarljósi:

  • Að stemma allan samdrátt við nýja starfsstefnu og þá færni sem við munum þurfa.
  • Að gera eins mikið og við getum fyrir þá sem verða fyrir áhrifum.
  • Að slaka ekki á kröfum okkar um fjölbreytni.
  • Að gera okkar besta til að segja öllum sem verða fyrir áhrifum beint frá þeim.
  • Að bíða með að tilkynna ákvarðanir þar til gengið hefur verið frá öllum smáatriðum. Þegar einungis er greint frá hluta upplýsinga getur það verið til hins verra.

  Ég hef lagt mig fram um að fylgja þessum meginreglum.

  Ferlið við fækkunina

  Ferlið okkar hófst á því að gera hnitmiðaðri starfsstefnu sem byggir á sjálfbæru kostnaðarverðslíkani. Við mátum hvernig hvert teymi passaði við nýju stefnuna og við ákvörðuðum stærð og lögun hvers teymis fram á við. Að því loknu gerðum við alhliðamat á hverjum teymismeðlim og tókum ákvarðanir miðað við nauðsynlega færni og hvernig þessi færni passaði við framtíðarþarfir rekstursins.

  Niðurstaðan er sú að við verðum að sjá á eftir teymismeðlimum sem okkur þykir vænt um og sem við virðum mikils. Frábært starfsfólk er að yfirgefa Airbnb og verður öðrum fyrirtækjum happafengur.

  Til að sjá um fólkið sem fer höfum við skoðað biðlaun, hlutafé, heilsugæslu og atvinnuaðstoð og gert okkar besta til að sýna öllum umhyggju.

  Starfslokagreiðsla

  Starfsfólk í Bandaríkjunum fær 14 vikna grunnlaun ásamt einni viku í viðbót fyrir hvert ár sem það hefur starfað hjá Airbnb. Starfstíminn verður námundaður að næsta heila ári. Starfsmaður sem hefur unnið hjá Airbnb í 3 ár og 7 mánuði fær til dæmis laun í 4 vikur í viðbót þannig að samtals verða greidd laun í 18 vikur. Fyrir utan Bandaríkin fá allir starfsmenn að minnsta kosti 14 vikna laun ásamt því að starfstími þeirra verður lengdur í samræmi við venjur hvers lands um sig.

  Hlutafé

  Við ætlum að falla frá kröfu okkar um að fólk sem var ráðið undanfarið ár vinni í heilt ár til að ávinna sér hlutafé. Því verða allir sem hætta störfum, óháð því hve lengi þeir hafa starfað hér, hluthafar. Auk þess uppfylla allir sem hætta störfum skilyrðin fyrir ávinnsludaginn 25. maí.

  Heilbrigðisþjónusta

  Við viljum takmarka kostnað við heilbrigðisþjónustu í þessari alþjóðlegu heilbrigðiskrísu sem enginn veit hvað mun vara lengi. Í Bandaríkjunum veitum við 12 mánaða sjúkratryggingu í gegnum COBRA. Í öllum öðrum löndum munum við veita sjúkratryggingu til ársloka 2020. Þetta stafar af því að lögum samkvæmt getum við ekki boðið trygginguna lengur eða af því að tryggingarnar sem við erum með heimili ekki framlengingu. Við munum einnig veita fjögurra mánaða geðheilsuaðstoð í gegnum KonTerra.

  Atvinnustuðningur

  Markmið okkar er að finna ný atvinnutækifæri fyrir fráfarandi starfsfólk Airbnb. Hér eru fimm leiðir þar sem við getum hjálpað:

  • Skrá yfir fyrrverandi starfsmenn: Við munum kynna opið vefsetur til að hjálpa fyrrverandi starfsfólki að finna nýja vinnu. Fráfarandi starfsfólki býðst að sýna mögulegum vinnuveitendum notendalýsingar, ferilskrár og dæmi um lokin verk.
  • Ráðningarteymi fyrrverandi starfsmanna: Verulegur hluti ráðningasviðs Airbnb mun verða að ráðningarteymi fyrrverandi starfsmanna til ársloka 2020. Ráðningarstjórar hjá Airbnb munu veita fráfarandi starfsmönnum aðstoð við að finna nýja vinnu.
  • RiseSmart: Við bjóðum fjögurra mánaða starfsþjónustu í gegnum RiseSmart, fyrirtæki sem sérhæfir sig í starfsbreytingum og leit að atvinnutækifærum.
  • Aðstoð núverandi starfsfólks til fyrrverandi starfsfólks: Við hvetjum alla starfsmenn sem halda vinnunni að vera með í verkefni til að hjálpa fráfarandi að finna næstu stöðu.
  • Fartölvur: Tölvur er mikilvæg verkfæri við að finna nýja vinnu og því leyfum við öllum sem eru að hætta að eiga Apple-fartölvurnar sínar.

  Þetta er fram undan

  Ég vil skýra málavexti fyrir ykkur öllum eins fljótt og auðið er. Starfsfólk okkar vinnur í 24 löndum og það veltur á lögum og starfsvenjum á hverjum stað hve langan tíma það tekur. Í sumum löndum eru gerðar mjög sértækar kröfur um afhendingu tilkynninga um atvinnumál. Þó að ferlið okkar sé mismunandi eftir löndum höfum við reynt að skipuleggja allt með hugulsemi fyrir hvern starfsmann.

  Ég get strax útskýrt málavexti fyrir þeim sem eru í Bandaríkjunum og Kanada. Eftir nokkrar klukkustundir verður þeim ykkar sem sagt verður upp boðið á fund í dagatalinu með yfirmanni í deildinni ykkar. Okkur fannst mikilvægt að láta hvern og einn vita persónulega í öllum tilvikum sem lög leyfðu. Síðasti vinnudagur fráfarandi starfsmanna í Bandaríkjunum og Kanada verður mánudagurinn 11. maí. Okkur fannst að mánudagur gæfi fólki tíma til að byrja á næstu skrefum og kveðja. Við skiljum og virðum mikilvægi þess.

  Sumir starfsmenn sem halda starfi sínu munu gegna nýju hlutverki og þeim verður boðið á fund með fundarefninu „nýtt hlutverk“ til að kynnast því nánar. Þau ykkar sem starfið áfram hjá Airbnb í Bandaríkjunum og Kanada fáið ekki fundarboð í dagatalið.

  Klukkan 18:00 á Kyrrahafstíma mun ég halda fund á world@ fyrir teymi okkar á Asíu- og Kyrrahafssvæðinu. Klukkan 12 á miðnætti á Kyrrahafstíma mun ég halda fund á world@ fyrir teymi okkar í Evrópu og Miðausturlöndum. Eftir hvern þessara funda höldum við áfram í samræmi við starfsvenjur í hverju landi.

  Ég hef beðið alla yfirmenn Airbnb um að bíða með að kalla saman teymi sín þar til í vikulok í virðingarskyni við þá starfsmenn okkar sem verða fyrir áhrifum af þessu. Ég vil gefa öllum næstu daga til að vinna úr þessu og ég mun halda forstjóraspjall með spurningum og svörum aftur á fimmtudaginn klukkan 16:00 á Kyrrahafstíma.

  Nokkur lokaorð

  Eins og ég hef lært undanfarnar átta vikur afhjúpar neyðarástand það sem er virkilega mikilvægt. Þótt við höfum gengið í gegnum erfiðleika er sumt orðið mér skýrara en nokkru sinni fyrr.

  Í fyrsta lagi er ég þakklátur fyrir alla hjá Airbnb. Þið hafið öll hvatt mig áfram við þessar átakanlegu aðstæður. Jafnvel við verstu aðstæður brestur fram það besta í okkur. Heimurinn þarf nú meira en nokkru sinni fyrr á mannlegum tengslum að halda og ég veit að Airbnb mun svara því kalli. Ég trúi því þar sem ég trúi á ykkur.

  Í öðru lagi þykir mér mjög vænt um ykkur öll. Ferðalög eru ekki eina hlutverk okkar. Þegar við stofnuðum Airbnb voru fyrstu kjörorðin okkar „mannleg ferðalög“. Mannlegi þátturinn skipti alltaf meira máli en ferðaþátturinn. Við viljum að allir tilheyri og umhyggja er kjarni þess að tilheyra.

  Til þeirra sem halda störfum áfram,

  Eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að virða fólkið sem fer er að láta það vita að framlag þess skipti máli og að það verði alltaf hluti af sögu Airbnb. Ég er jafn fullviss um að verk þess muni endast og ég er um að hlutverk okkar muni standast tímans tönn.

  Til þeirra sem þurfa að hætta hjá Airbnb:

  Ég biðst innilegrar afsökunar. Þetta er ekki ykkur að kenna. Heimurinn mun aldrei hætta að leita að þeim eiginleikum og hæfileikum sem þið færðuð Airbnb … sem gerðu Airbnb að því sem það er. Þakka ykkur kærlega fyrir að deila þeim með okkur.

  Brian

  Airbnb
  5. maí 2020
  Kom þetta að gagni?